Fleiri fréttir

Jón G. Guðjónsson | miðvikudagurinn 17. apríl 2013 Prenta

Aðsend grein frá Ólínu Þorvarðardóttur.

Ólína Þorvarðardóttir.
Ólína Þorvarðardóttir.
Jöfnum stöðuna

Vestfirðir eru svæði sem býr yfir ótal tækifærum, mannauði, dýrmætum auðlindum á borð við fiskinn í sjónum og sjálfa náttúruna sem felur í sér mikla möguleika til atvinnusköpunar ekki síst á sviði ferðaþjónustu, náttúruskoðunar, menningar  - að ónefndri sjálfri undirstöðuatvinnugrein okkar sem er sjávarútvegurinn.

 

En við stöndum við frammi fyrir áskorunum. Við búum á harðbýlu svæði þar sem fólki fækkar og atvinnulíf á erfitt uppdráttar. Samgöngur eru strjálar, raforkan ótrygg. Vestfirðir eru landsvæði sem þarf að sækja fram. Við erum svokallað varnarsvæði sem býr við ýmsar tálmanir en þær eru allar yfirstíganlegar, ef rétt er haldið á spilum og  ef rétt er gefið úr stokknum.

 

Höfuðborgin sogar til sín bæði fjármagn og fólk. Það er staðreynd að hún eyðir meiru en hún aflar ríkissjóði. Það er líka staðreynd að af hverjum tveimur krónum sem landsbyggðin aflar í ríkissjóð, fær hún aðeins aðra til baka. Þessu þurfum við að breyta.

 

Það er ekki náttúrulögmál að eitt landsvæði beri þrisvar sinnum hærri húshitunarkostnað en annað. Flutningskostnað sem hækkar vöruverð og rýrir lífskjör má lækka með góðum samgöngum. Skilyrði atvinnulífsins velta ekki síst á raforkuöryggi, góðum fjarskiptum og já, enn og aftur samgöngum. Þessi þrjú atriði eru þeir innviðir sem við verðum að hafa í lagi, svo svæðið sé samkeppnishæft, svo það geti laðað til sín atvinnuuppbyggingu og mannlíf og staðið undir þjónustu við íbúa sína.

 

Eins og sakir standa er vitlaust gefið úr stokknum. Verkefnið framundan er að breyta því. Það verkefni er hafið, og á þessu kjörtímabili hafa unnist góðir varnarsigrar.

 

Bolungarvíkurgöng urðu að veruleika - sú mikla samgöngu og umferðaröryggisbót.

 

Milljarða framkvæmdir hafa staðið yfir á Vestfjarðarvegi 60 í Barðastrandarsýslu undanfarin ár, og nú sér vonandi loks fyrir endann á þeim vandkvæðum sem uppi hafa verið varðandi leiðarval um Þorskafjörð.

 

Dýrafjarðargöng - þau náðust aftur inn á dagskrá jarðgangaframkvæmda þaðan sem þau voru horfin. Þessi mikilvæga samgöngubót sem okkur var lofað í þar síðustu kosningum að yrði lokið 2012 - voru horfin af framkvæmdaáætluninni í upphafi kjörtímabilsins. Með harðfylgi náðust þau inn aftur, og s.l. vor samþykkti Alþingi endurskoðaða samgönguáætlun um að Dýrafjarðargöngum og endurgerð Dynjandisheiðar verði lokið 2018.  Þessu þarf að fylgja fast eftir og það mun velta á þeim sem veljast til þings, nú að loknum kosningum, að tryggja að þessi mikilvæga lífæð verði tengd milli byggðarlaganna á norðan og sunnanverðum Vestfjörðum ekki seinna en 2018. Með þeirri tengingu ná byggðarlögin saman, fólks- og vöruflutningar geta átt sér stað og þar með náum við þeirri stækkun atvinnu, búsetu og umsvifa sem gerir okkur kleift að vera eitt samfélag hér á Vestfjörðum.  

 

Súðavíkurgöng komust líka á dagskrá - þau göng hafa aldrei verið á samgönguáætlun, og nú þarf að tryggja að það gerist. Ég varð þess heiðurs aðnjótandi að flytja fyrsta þingmálið sem flutt hefur verið um þetta mál í janúar síðastliðnum  - undarlegt til þess að hugsa að það skuli ekki hafa gerst fyrr, til dæmis í góðærinu fyrir hrun þegar smjör virtist drjúpa af hverju strái.

 

Þá er vert að nefna mikilvægar ákvarðanir og umbætur fyrir búsetu, atvinnu og samkeppnisskilyrði Vestfjarða.

 

Nú eru strandsiglingar að hefjast eftir áratuga hlé.

 

Fyrstu skrefin hafa verið stigin til lækkunar húshitunarkostnaðar. Ríkisstjórnin lét vinna vandaða skýrslu um aðgerðir í þeim efnum, og þeirri skýrslu þarf að fylgja eftir á næstu misserum.

 

Menntunarátakið vinnandi vegur hefur leitt af sér umtalsverða fjármuni til menntastofnana hér á svæðinu - verkefni sem sannarlega mun skila sér í auknum möguleikum fólks til þess að komast út í atvinnulífið á ný,.

 

Strandveiðum var komið á fyrir fjórum árum. Þær hafa hleypt í hafnir landsins og tryggt hráefnisframboð til fiskvinnslu í plássum þar sem fiskvinnslan lokaði yfir sumarmánuðina áður en strandveiðarnar komu til.

 

Veiðileyfagjaldið, sem lagt var á s.l. haust, mun skila okkur milljörðum árlega inn í samfélagssjóðinn. Þess vegna gat ríkisstjórnin lagt fram 3ja ára fjárfestingaáætlun um mikla styrkingu innviða, m.a. stórra samgönguframkvæmda sem munu ekki síst nýtast þessu svæði hér.

 

Öll þau verkefni sem nú eru nefnd hafa þýðingu fyrir samkeppnisstöðu Vestfjarða og möguleika til framtíðar. Þau  miða öll að því að jafna aðstöðumun og rétta hlut landsvæðis í varnarstöðu.

 

En betur má ef duga skal. Það er mikilvægt að við þá uppbyggingu sem framundan er - hvort sem hún lýtur að einu svæði eða samfélaginu öllu - séu unnið eftir grunngildum jafnaðarstefnunnar.

 

Krafan um jöfnuð er ekki klisja, hún er lífskoðun og stefna í verki, eins og dæmin sanna. Jafnaðarstefnan er leiðarljós Samfylkingarinnar.

 

Ólína Þorvarðardóttir, alþingismaður Samfylkingar í NV-kjördæmi

Atburðir

« 2024 »
« Mars »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Úr myndasafni

  • Hilmar og Gulli píparar.08-11-08.
  • Íshrafl við Selsker 22-08-2009.
  • Gamla bryggjan og uppskipunarbátur í ísnum.
  • Krossnes séð úr urðunum 15-03-2005.
Vefumsjón