Fleiri fréttir

Jón G. Guðjónsson | sunnudagurinn 30. ágúst 2009 Prenta

Frá Stefnumóti á Ströndum.

Mynd Ágúst G Atlason.
Mynd Ágúst G Atlason.

Atvinnu- og menningarsýningin Stefnumót á Ströndum var opnuð í gær á Hólmavík við hátíðlega athöfn. Mikið var um dýrðir, en yfir 60 aðilar á Ströndum tóku þátt í sýningunni, fyrirtæki, stofnanir og félög. Hefur mikil vinna verið lögð í að setja upp sýningarbása í félagsheimilinu á Hólmavík þar sem Strandamenn kynna allt það besta sem þeir hafa upp á að bjóða í atvinnulífi, menningarstarfi og mannlífi, á fjölbreyttan og fróðlegan máta.

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson sem er verndari sýningarinnar, hélt hátíðarræðuna í tilefni dagsins, en einnig fluttu heimamenn á öllum aldri tónlistaratriði á hátíðardagskránni, kveðnar voru lausavísur, lesin vinakveðja úr Reykhólasveit. Einnig hélt Jón Bjarnason landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra ræðu.

Dagskrá Stefnumóts á Ströndum hófst í gærmorgun með því að félagar í Héraðssambandi Strandamanna hlupu um nýjan veg um Arnkötludal til móts við félaga sína úr Reykhólasveit í Ungmennafélaginu Aftureldingu. Um það bil 30 hlauparar á öllum aldri, vanir og óvanir, tóku þátt í hlaupinu fyrir hönd Strandamanna og hlupu sex alla leiðina frá vegamótum við Hrófá þar til hóparnir hittust. Aðrir gátu fengið far með kindavagni hluta leiðarinnar.

Miðja vegu, á svokölluðum Þröskuldum, mættust hóparnir og skiptust fánaprýddar fylkingar á vinakveðjum sem síðan voru lesnar upp á hátíðahöldunum sitt hvoru megin við heiðina, Stefnumóti á Ströndum og Reykhóladeginum. Auk þess færðu Reykhólasveitungar Strandamönnum stein úr sinni heimasveit til að setja í vörðu til framtíðar sem reist er við félagsheimilið á Hólmavík í dag. Verktakinn við vegagerðina, Ingileifur Jónsson og Guðrún kona hans, tóku vel á móti hópunum og buðu öllum skaranum í kaffi í vinnubúðum verktakanna og gáfu hlaupurunum endurskinsvesti til að klæðast þegar hlaupið er á vegum úti. Þegar nýr vegur um Arnkötludal opnar síðar í haust aukast tækifæri milli Reykhólasveitar og Strandamanna á margvíslegri samvinnu og samskiptum verulega.

Fjórir ættliðir Strandamanna unnu að því í allan gærdag að reisa svokallaða vörðu til framtíðar utan við Félagsheimilið á Hólmavík. Sverrir Guðbrandsson eldri, Guðbrandur Sverrisson, Sverrir Guðbrandsson yngri og Jakob Ingi Sverrisson hafa umsjón með verkinu og sjá um hleðsluna. Forsetahjónin, Ólafur Ragnar Grímsson og Dorritt Moussaieff, lögðu stein frá Bessastöðum í vörðuna. Fjöldi annarra gesta og þátttakenda á Stefnumóti á Ströndum komu með stein frá sínum heimaslóðum til að setja í vörðuna.

Það eru Þróunarsetrið á Hólmavík og Arnkatla 2008 sem standa á bak við Stefnumót á Ströndum. Hugmyndin með verkefninu er að sýna og sanna að á Ströndum er öflugt athafna- og menningarlíf sem landsmönnum öllum er boðið velkomið að taka þátt í. Er það von Strandamanna að farsælt samstarf ólíkra aðila efli byggð og verði kveikja að nýjum hugmyndum til framfara. Markmið með sýningunni er tvíþætt. Annars vegar að efla ímynd Stranda út á við sem aðlaðandi búsetu-, ráðstefnu- og ferðamannasvæði, en hins vegar að efla tengsl ólíkra aðila á Ströndum með því að leiða saman hefðbundna og óhefðbundna starfsemi.

Athugasemdir

Atburðir

« 2024 »
« Apríl »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Úr myndasafni

  • Ísrek í Ávíkinni
  • Byrjaðað jafna brunarústir við jörðu 19-06-2008.
  • Veggir feldir 19-06-2008.
  • Jón Guðbjörn og Úlfar ræða málin.
Vefumsjón