Fleiri fréttir

Jón G. Guðjónsson | laugardagurinn 4. október 2008 Prenta

Níutíu og átta ára starfsemi í Bæjarhreppi lokið.

Borðeyri Mynd Strandir.ÍS
Borðeyri Mynd Strandir.ÍS
Strandir.ÍS
Greyn eftir Ingibjörgu Rósu Auðunsdóttir.
Þriðjudagurinn 30. september 2008  er síðasti opnunardagur Sparisjóðsins á Borðeyri, sem ég kýs að kalla svo. Er þar skarð fyrir skildi, enda mikil eftirsjá að rétt tæplega aldar gamalli stofnun sem alla tíð hefur stutt íbúa byggðarlagsins í sókn til betri lífskjara. Sparisjóðurinn tók til starfa árið 1910. Fyrstu 28 árin með aðsetur í Sýslumannshúsinu á Borðeyri og var Halldór Kr. Júlíusson sýslumaður formaður sjóðsstjórnar og gjaldkeri á þeim árum, að því er talið er, en engar gjörðabækur hafa varðveist frá stofnfundi til ársins 1923. 

 
Árið 1938 fluttist Sparisjóðurinn að Borðeyrarbæ og var starfræktur þar allt til ársins 1976 að hann fluttist aftur til Borðeyrar. Þar hefur starfsemi hans því farið fram síðast liðin 32 ár. Góð samvinna hefur verið milli Sparisjóðsins og Bæjarhrepps og helgaðist það meðal annars af  sömu sýn á mikilvægi velferðar íbúanna og byggðarlagsins í heild sinni. Allt frá því að Sparisjóðurinn fluttist til Borðeyrar hefur hann haft starfsemi sína í húsnæði í eigu Bæjarhrepps, í norðurenda skólahússins og hefur Bæjarhreppur einnig haft þar skrifstofuaðstöðu hin síðari ár.

Sparisjóðurinn og íbúar svæðisins ekki síður, hafa átt því láni að fagna að til starfa við hann hefur valist afbragðs fólk. Þeir sem hvað lengst gengdu starfi sparisjóðsstjóra utan Halldórs Kr. Júlíussonar sýslumanns sem fyrr var nefndur voru Sæmundur Guðjónsson Borðeyrarbæ, en hann stýrði sjóðnum frá árinu 1938 allt til ársins 1976 að Pálmi Sæmundsson Laugarholti tók við stjórn hans. Gengdi hann því starfi í 22 ár. Sæmundur Guðjónsson þótti afar farsæll sparisjóðsstjóri og það sama á einnig við um Pálma Sæmundsson. 

Sparisjóðurinn sameinaðist Sparisjóði Vestur Húnvetninga árið 1998 og síðan Sparisjóði Keflavíkur á síðastliðnu ári. Ásdís Guðmundsdóttir hefur verið afgreiðslustjóri í Sparisjóðnum á Borðeyri frá 1998 og farist það vel úr hendi undir góðri stjórn Páls Sigurðssonar sparisjóðsstjóra.

Er vert að færa þessu góða fólki þakkir fyrir að hafa ljáð Sparisjóðnum á Borðeyri starfskrafta sína svo lengi sem raun ber vitni og hafa með því átt stóran þátt í að skapa merka sögu hans í byggðalaginu.

Ég kem til með að sakna þeirrar góðu þjónustu sem veitt hefur verið í Sparisjóðnum á Borðeyri og sé svo sannarlega meinbugi á því að fleiri störf hverfi úr sveitarfélaginu. Ég, sem viðskiptavinur Sparisjóðsins, íbúi Bæjarhrepps og síðast en ekki síst kjörinn fulltrúi í hreppsnefnd Bæjarhrepp sætti mig ekki við lokun sparisjóðsins á Borðeyri (enda á hvaða vegferð væru þeir sveitarstjórnarmenn sem sættu sig við skerðingu á þjónustu og fækkun starfa í sínu sveitarfélagi?). Ég kem þó til með að una henni, einvörðungu í ljósi þess að ég tel mig hafa lagt mitt af mörkum við að reyna að fá ákvörðuninni breytt.

Landsbyggðin á í vök að verjast á mörgum sviðum, en það erum við sem þar búum sem þurfum að standa vaktina. 

Gjört að Kollsá II, í lok septembermánaðar 2008,
Ingibjörg Rósa Auðunsdóttir

www.strandir.is 

Athugasemdir

Atburðir

« 2024 »
« Apríl »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Úr myndasafni

  • Herðubreið í miklum hafís útaf Reykjaneshyrnu.
  • 21-09-2022.Borgarísjaki CA. 10 KM. NNA af Reykjaneshyrnu, eða CA. 15 KM. Austur af Sæluskeri. Virðist strandaður.
  • Íshrafl í fjörinni í Ávík.28-12-2001.
  • Báturinn Agnes fer ekki lengra inn og sleppir flotanum.
Vefumsjón