Fleiri fréttir

Jón G. Guðjónsson | mánudagurinn 3. júlí 2017 Prenta

Nýkrýndir Norðurlandameistarar á Skákhátíð í Árneshreppi um næstu helgi.

Jóhann Hjartarson nýkrýndur Norðurlandameistari.
Jóhann Hjartarson nýkrýndur Norðurlandameistari.
1 af 2

Jóhann Hjartarson og Lenka Ptacnikova, sem nú um helgina urðu Norðurlandameistarar í skák eru bæði meðal keppenda á Skákhátíð í Árneshreppi um næstu helgi, 7.-9. júlí. Skákfélagið Hrókurinn stendur fyrir hátíðinni, og verður hápunkturinn laugardaginn 8. júlí þegar haldið verður minningar mót Jóhönnu Kristjónsdóttur. Yfirskrift hátíðarinnar er sótt í kjörorð Jóhönnu, sem var dyggur liðsmaður Hróksins: Til lífs og til gleði.

 

Meðal annarra keppenda er nýbakaður Íslandsmeistari, Guðmundur Kjartansson, stórmeistarinn Jón L. Árnason, og þær Guðlaug Unnur Þorsteinsdóttir, Sigurlaug R. Friðþjófsdóttir og Áslaug Kristinsdóttir, sem allar hafa orðið Íslandsmeistarar.

 

Hátíðin hefst með tvískákarmóti í húsi Ferðafélags Íslands í Norðurfirði föstudagskvöldið 7. júlí kl. 20. Í tvískák eru tveir saman í liði, og iðulega afar heitt í kolunum.

 

Gert er ráð fyrir allt að 40-50 keppendum á stórmótinu í samkomuhúsinu í Trékyllisvík daginn eftir og ættu áhugasamir að melda sig sem fyrst. Minningarmótið hefst klukkan 14 og verða tefldar 8 umferðir, með 10 mínútna umhugsunartíma. Verðlaun á mótinu eru í senn vegleg og óvenjuleg, m.a. listaverk sem Guðjón Kristinsson frá Dröngum og Valgeir Benediktsson í Árnesi vinna sérstaklega af þessu tilefni. Þá verða ýmsir munir úr fjarlægum löndum, vegleg gjafabréf og fleiri vinningar.

 

Á laugardagskvöldið verður hátíðarkvöldverður í félagsheimilinu, þar sem ýmislegt verður til skemmtunar, og verðlaun á minningarmóti Jóhönnu afhent.

Hátíðinni lýkur með hraðskákmóti í Kaffi Norðurfirði sunnudaginn 9. júlí kl. 12. Þar verða tefldar 5 mínútna skákir, 7 umferðir, og sigurvegarinn hlýtur nafnbótina Norðurfjarðarmeistarinn 2017.

 

Áhugasamir ættu að skrá sig sem fyrst hjá hrafnjokuls@hotmail.com eða á chesslion@hotmail.com.

Mjög góð tjaldstæði eru við Finnbogastaðaskóla og í Norðurfirði. 

Athugasemdir

Atburðir

« 2024 »
« Mars »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Úr myndasafni

  • Íshrafl í Ávíkinni 18-12-2010.
  • Borgarísjaki með tvo tinda er NNV við Reykjaneshyrnu ca 18 KM frá landi.26-08-2018.
  • Litla-Ávík 10-03-2008.
  • Tekin grunnur 22-08-08.
Vefumsjón