Fleiri fréttir

| laugardagurinn 24. apríl 2010 Prenta

Skákhátíð í Árneshreppi

Friðrik Ólafsson fyrsti stórmeistari Íslendinga.
Friðrik Ólafsson fyrsti stórmeistari Íslendinga.
Dagana 19. til 21. júní verður Skákhátíð í Árneshreppi 2010. Hápunktur verður Afmælismót Friðriks Ólafssonar í Djúpavík, laugardaginn 19. júní. Mótið er öllum opið og meðal keppenda verða meistararnir Jóhann Hjartarson, Helgi Ólafsson, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Gunnar Björnsson, Ingólfur Benediktsson og Björn Torfason og Friðrik, sem í ár fagnar 75 ára afmæli. Sérstakur gestur hátíðarinnar er Ivan Sokolov, sem sigrað hefur á fjölda alþjóðlegra móta, hérlendis sem erlendis.


Þetta er þriðja árið í röð sem Hrókurinn og félagar efna til skákhátíðar í Árneshreppi. Árið 2008 sigraði Helgi Ólafsson á Minningarmóti Páls Gunnarssonar og tryggði sér sæmdarheitið Djúpavíkurmeistari í skák. Helgi varði titilinn með glæsilegum sigri á Minningarmóti Guðmundar Jónssonar frá Stóru-Ávík, sem fram fór í Djúpavík í fyrra.


Mótið er öllum opið. Keppnisgjald er 1500 krónur en ókeypis fyrir börn, 18 ára og yngri, og fólk eldra en 60 ára. Þá er ókeypis fyrir konur, enda fer Afmælismót Friðriks fram á sjálfan kvennadaginn.


Teflt er í gömlu síldarverksmiðjunni í Djúpavík, sem reist var á fjórða áratug síðustu aldar og var þá stærsta verksmiðja á Íslandi. Andblær liðins tíma, einstök náttúrufegurð og blómlegt mannlíf í Árneshreppi skapa frábært andrúmsloft fyrir hátíð, þar sem skákunnendur úr öllum áttum koma saman.


Það er sérlega ánægjulegt að hátíðin í ár skuli tileinkuð afmæli Friðriks Ólafssonar, sem fyrstur Íslendinga varð stórmeistari í skák og var um árabil í hópi fremstu skákmanna heims.


Hátíðin hefst á föstudagskvöldið 18. júní með tvískákmóti, en það er skemmtilegt keppnisform þar sem tveir eru saman í liði. Afmælismót Friðriks Ólafssonar er haldið laugardaginn 19. júní og daginn eftir verður hraðskákmót í Kaffi Norðurfirði. Þá verður efnt til hliðarviðburða af ýmsu tagi, auk þess grillað verður og efnt í mikla brennu. Þá gefst gestum að sjálfsögðu tími til að kynnast dásemdum Árneshrepps og njóta lífsins þar sem vegurinn endar.


Veitt verða peningaverðlaun á Afmælismóti Friðriks Ólafssonar en ekki er minna vert um vinninga frá fólkinu í Árneshreppi. Í fyrra gátu menn unnið bátsferð á Hornstrandir, gistingu í rómantísku smáhýsi á heimskautsbaug, gómsætt lambalæri, listilega prjónaðar húfur, trefla og vettlinga, útskorna muni úr rekaviði og fleira og fleira.


Búast má við mörgum góðum gestum, auk þess sem heimamenn á Ströndum fjölmenna að vanda. Æskilegt er að keppendur skrái sig sem fyrst og gangi frá gistingu. Nánari upplýsingar og skráning hjá Hrafni Jökulssyni í hrafnjokuls@hotmail.com og Róbert Lagerman í chesslion@hotmail.com eða 6969658.

 

Dagskrá Skákhátíðar í Árneshreppi 2010:

Föstudagur 18. júní: Tvískákmót í Djúpavík, klukkan 20.

Laugardagur 19. júní: Afmælismót Friðriks Ólafssonar í Djúpavík, klukkan 13. Verðlaunaafhending klukkan 17. Grill og brenna um kvöldið.

Sunnudagur 20. júní: Hraðskákmót í Kaffi Norðurfirði, klukkan 13.

Athugasemdir

Atburðir

« 2024 »
« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Úr myndasafni

  • Sælusker(Selsker)-06-07-2004.
  • Þá fer langa súlan út.
  • Árnesstapar-Reykjaneshyrna í baksýn og Mýrahnjúkur frá Hvalvík séð.10-03-2008.
  • NV hlið unnið við kjöljárn.Ási og Siggi.18-12-2008.
Vefumsjón