Fleiri fréttir

Jón G. Guðjónsson | föstudagurinn 28. febrúar 2020 Prenta

Stórafmæli félags Árneshreppsbúa laugardaginn 14. mars 2020.

Frá Gjögri.
Frá Gjögri.
1 af 2

Á þessum merku tímamótum er vel við hæfi að senda félagsmönnum kveðju í gegnum eina vefmiðilinn sem gerður er út frá Árneshreppi. Það er dýrmætt og þakkarvert að Jón Guðbjörn í Litlu Ávík skuli færa okkur reglulega fréttir úr sveitinni okkar.

Félagið var stofnað fyrir 80 árum í Oddfellowhúsinu í Reykjavík. Það var fyrst í stað hugsað fyrir brottflutta íbúa í Reykjavík og nágrenni en fljótlega var ákveðið að opna það fyrir alla brottflutta Árneshreppsbúa sama hvar þeir bjuggu á landinu og að sjálfssögðu voru íbúar Árneshrepps einnig boðnir velkomnir í félagið.

Margt hefur drifið á daga félagsins frá stofnun þess og hafa margi fundir, skemmtikvöld, árshátíðir, spilakvöld, jólatrésskemmtanir og alls kyns viðburðir verið haldni í nafni þess í gegnum tíðina.

Mikið verk var unnið fyrir áratugum við að safna ljósmyndum af fólki og bæjum í hreppnum. Og er það myndasafn varðveitt hjá Ljósmyndasafni Reykjavíkur. Jafnframt hefur félagið staðið að kvikmyndagerð og eftir liggja tvær mannlífsmyndir og myndin Fjallaferðir í Árneshreppi á Ströndum sem er eftir Pálma Guðmundsson í Bæ.

Segja má að nýlegasta átak félagsins hafi verið að veita aðstoð við söfnun stofnfélaga vegna nýs verslunarfélags í Norðurfirði. Nú er verslunarfélagið orðið ársgamalt og stendur vel eftir fyrsta rekstrarárið. Við þökkum verkefninu Brothættum byggðum fyrir aðkomu þess að þeirri stofnun og þá sérstaklega Skúla Gautasyni, verkefnastjóra, fyrir hans framlag.

Árið 1951 afhenti félagið Árneshreppi að gjöf ræðupúlt og fundastól fyrir fundarstjóra sem það lét smíða og eru mjög fallegir og vandaðir gripir. Gripirnir eru varðveittir í félagsheimilinu í Árnesi í Trékyllisvík. Á 25 ára afmæli félagsins gaf Árneshreppur félaginu forláta hamar sem útskorinn var af Ríkharði Jónssyni og er hann enn notaður við fundarsköp félagsins. Á öllum þeim tíma sem liðinn er hefur félagið notið mikillar velvildar félagsmanna sem oft hafa látið rausnarlegar gjafir renna til þess. Gjafirnar hafa meðal annars verið notaðar til þess að standa undir rekstri félagsins. Félagið hefur jafnframt í gegnum tíðina verið svo lánsamt að geta látið gott af sér leiða. Til dæmis studdi það við Finnbogastaðaskóla með því að gefa skólanum tölvur og glerskáp undir muni fyrir náttúrufræðikennslu. Einnig hefur félagið öðru hvoru stutt við félaga sína á erfiðum tímum í þeirra lífi. Sem dæmi um slíkan stuðning má nefna átakið Áfram Finnbogastaðir sem hleypt var af stokkunum eftir að Finnbogastaðabærinn brann. Þar safnaðist myndarlegur sjóður sem afhentur var Guðmundi bónda á Finnbogastöðum. Hrafn Jökulsson aðstoðaði þá félagið dyggilega við söfnunina. Er það von mín að félagið njóti áfram mikillar góðvildar sinna félagsmanna þannig að hægt sé að halda áfram á þessari braut. Rétt er að taka fram að allt frá stofnun félagsins hefur öll vinna í þágu þess verið unnin í sjálfboðavinnu.

Forsala aðgangsmiða á afmælishátíðina verður þann 7. mars milli klukkan 14 og 16 í Félagsheimili Seltjarnarness. Afmælishátíðin verður síðan haldin þann 14. mars á sama stað og er það Veislan veisluþjónusta sem sér um að gera vel við okkur í mat og drykk.

Fréttabréf er komið í póst til ykkar kæru félagsmenn og eru allar helstu upplýsingar í því varðandi afmælishátíðina og styrktarreikninga félagsins. Einnig má sjá upplýsingar á facebooksíðu félagsins: Félag Árneshreppsbúa.

Kærar afmæliskveðjur til ykkar allra.

Kristmundur Kristmundsson, formaður.

Athugasemdir

Atburðir

« 2024 »
« Maí »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Úr myndasafni

  • Melar I og II.
  • Einingarnar hífðar úr gámunum.14-10-08.
  • Norðvestur veggur,vinnuljós inni að kvöldi 27-10-08.
Vefumsjón