Fleiri fréttir

Jón G. Guðjónsson | sunnudagurinn 16. apríl 2017 Prenta

Hvalárvirkjun – Opið bréf til hreppsnefndar.

Hilmar Vilberg Gylfason.
Hilmar Vilberg Gylfason.

Bréf þetta er skrifað til hreppsnefndar Árneshrepps þann 13. apríl 2017 í tengslum við fyrirhugaðar breytingar á Aðalskipulagi sem eru liður í því ferli að heimila virkjunarframkvæmdir.

Ágæta hreppsnefnd Árneshrepps

Athugasemdir mínar snúa almennt að virkjunarframkvæmdinni sem slíkri. Í dag tel ég að tvær helstu atvinnugreinarnar í Árneshreppi séu sauðfjárrækt og ferðaþjónusta. Sú síðarnefnda hefur heldur verið í sókn og vafalítið ónýtt tækifæri á þeim vettvangi. Í mínum huga byggir ferðaþjónustan í Árneshreppi nánast að öllu leiti á náttúruupplifun, það er ferðamenn sækja Árneshrepp heim til að sjá náttúruna. Ófeigsfjörður er þar ekki undanskilinn enda afskaplega fallegur staður með að mestu ósnortinni náttúru.

Það liggur fyrir í skriflegu svari Vesturverks að fyrirtækið gerir ekki ráð fyrir neinum öðrum vegaframkvæmdum í tengslum við virkjunarframkvæmdirnar en á veginum frá Melum norður í Ófeigsfjörð. Þá liggur jafnframt fyrir samkvæmt sama svari að viðhaldi á fyrirhugaðri virkjun verði sinnt yfir sumartímann, út frá því má álykta að engin krafa er um heilsárssamgöngur tengdum rekstri virkjunarinnar.

Það liggur fyrir í skriflegu svari Vesturverks að fyrirtækið hefur ekki heimild til að koma að lagningu 3ja fasa rafmagns í Árneshreppi. Þá er lagning 3ja fasa jarðstrengs vel á veg komin og væntanlega er ódýrara fyrir Orkubúið að einfaldlega ljúka þeirri framkvæmd frekar en að kaupa sig inn á tenginet fyrirhugaðrar Hvalárvirkjunar.

Það liggur fyrir í skriflegu svari Vesturverks að Hvalárvirkjun, verði hún að veruleika, verður ómönnuð. Í því svari kemur jafnframt fram að þjónusta sem hægt væri að sinna frá Árneshreppi snýr að eftirliti og hugsanlega einhverju tilfallandi viðhaldi, þessi vinna er óskilgreind en varla er um að ræða meira en sem nemur í heildina hálfu starfi á ári. Enda má ljóst vera að viðhaldsvinna á glænýrri virkjun sem er knúin af tiltölulega hreinu vatni hlýtur að vera í algjöru lágmarki fyrstu árin eða áratugina.

Upphaglegar áætlanir gerðu ráð fyrir að samhliða virkjunarframkvæmdum yrði farið í stórfellda atvinnuuppbyggingu í Árneshreppi, var verksmiðja á Eyri til að mynda nefnd í því samhengi. Slíkt hefði auðvitað breytt stöðu Árneshrepps á mjög jákvæðan hátt til framtíðar. Núverandi áætlanir gera hins vegar ráð fyrir að rafmagnið fari út úr sveitinni. Áætlanirnar gera meira að segja ráð fyrir að rafmagnið fari, eftir því sem ég kemst næst, með háspennulínu alla leið suður í Gilsfjörð og tengist þar inn á landsnetið. Það þýðir að allt eins líklegt er að rafmagnið verði raunverulega notað til stóriðjuframkvæmda í Helguvík eða í Hvalfirði, rafmagninu er einfaldlega veitt þangað sem þörf er á því hverju sinni.

Eitt má þó vera alveg ljóst og það er að ef af virkjunni verður og rafmagnið verður leitt með tvö þúsund milljóna króna háspennulínu frá virkjuninni suður í Gilsfjörð þá verður rafmagnið aldrei notað til atvinnuuppbygginar í Árneshreppi.

Einn jákvæður punktur hefur verið nefndur í þessu ferli og það eru aukin fasteignagjöld, heyrst hefur að þau geti numið 20-25 milljónum á ári en ekki liggja fyrir nákvæmar tölur. Í nýlegri blaðagrein kom fram að Árneshreppur hefði árið 2015 fengið um 15 milljónir úr Jöfnunarsjóði, væntanlega tapast þær tekjur á móti auknum fasteignagjöldum, sem gefur þá niðurstöðu að tekjuaukningin gæti orðið 5-10 milljónir á ári?

Ég tel einfaldlega, miðað við núverandi forsendur, að virkjunin sé rangt skref fyrir samfélagið, framkvæmdin muni ekki skila neinum þeim ávinningi sem haft geti raunveruleg áhrif á byggð í sveitinni auk þess að vera til þess fallin að eyðileggja tækifæri í aukinni ferðaþjónustu.

Eru íbúar Árneshrepps raunverulega tilbúnir að fórna Ófeigsfjarðarsvæðinu fyrir kannski hálft starf, einhverjar vegabætur frá Melum í Ófeigsfjörð, einhverjar milljónir í fasteignagjöld og smalaveg? Íbúar Árneshrepps hafa alla tíð verið þekktir fyrir að lifa af landinu, í sátt við það, og skila landinu þannig til komandi kynslóða að þær geti einnig á sama hátt lifað af því. Það hlýtur því að vera krafa íbúa Árneshrepps og ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir virkjunarframkvæmdum að rafmagnið verði notað til atvinnuuppbygginar í heimabyggð, Árneshreppi.

Með vinsemd og virðingu

Hilmar Vilberg Gylfason frá Krossnesi

Atburðir

« 2024 »
« Júlí »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30 31      

Úr myndasafni

  • Þorsteinn og Ási við vinnu á lagnagrind.23-01-2009.
  • Ágúst Guðjónsson sér um blöndunina..06-09-08.
  • Séð að Felli 15-03-2005.
Vefumsjón