Fleiri fréttir

Jón G. Guðjónsson | sunnudagurinn 16. apríl 2017

Hvalárvirkjun – Opið bréf til hreppsnefndar.

Hilmar Vilberg Gylfason.
Hilmar Vilberg Gylfason.

Bréf þetta er skrifað til hreppsnefndar Árneshrepps þann 13. apríl 2017 í tengslum við fyrirhugaðar breytingar á Aðalskipulagi sem eru liður í því ferli að heimila virkjunarframkvæmdir.

Ágæta hreppsnefnd Árneshrepps

Athugasemdir mínar snúa almennt að virkjunarframkvæmdinni sem slíkri. Í dag tel ég að tvær helstu atvinnugreinarnar í Árneshreppi séu sauðfjárrækt og ferðaþjónusta. Sú síðarnefnda hefur heldur verið í sókn og vafalítið ónýtt tækifæri á þeim vettvangi. Í mínum huga byggir ferðaþjónustan í Árneshreppi nánast að öllu leiti á náttúruupplifun, það er ferðamenn sækja Árneshrepp heim til að sjá náttúruna. Ófeigsfjörður er þar ekki undanskilinn enda afskaplega fallegur staður með að mestu ósnortinni náttúru.

Það liggur fyrir í skriflegu svari Vesturverks að fyrirtækið gerir ekki ráð fyrir neinum öðrum vegaframkvæmdum í tengslum við virkjunarframkvæmdirnar en á veginum frá Melum norður í Ófeigsfjörð. Þá liggur jafnframt fyrir samkvæmt sama svari að viðhaldi á fyrirhugaðri virkjun verði sinnt yfir sumartímann, út frá því má álykta að engin krafa er um heilsárssamgöngur tengdum rekstri virkjunarinnar.

Það liggur fyrir í skriflegu svari Vesturverks að fyrirtækið hefur ekki heimild til að koma að lagningu 3ja fasa rafmagns í Árneshreppi. Þá er lagning 3ja fasa jarðstrengs vel á veg komin og væntanlega er ódýrara fyrir Orkubúið að einfaldlega ljúka þeirri framkvæmd frekar en að kaupa sig inn á tenginet fyrirhugaðrar Hvalárvirkjunar.

Það liggur fyrir í skriflegu svari Vesturverks að Hvalárvirkjun, verði hún að veruleika, verður ómönnuð. Í því svari kemur jafnframt fram að þjónusta sem hægt væri að sinna frá Árneshreppi snýr að eftirliti og hugsanlega einhverju tilfallandi viðhaldi, þessi vinna er óskilgreind en varla er um að ræða meira en sem nemur í heildina hálfu starfi á ári. Enda má ljóst vera að viðhaldsvinna á glænýrri virkjun sem er knúin af tiltölulega hreinu vatni hlýtur að vera í algjöru lágmarki fyrstu árin eða áratugina.

Upphaglegar áætlanir gerðu ráð fyrir að samhliða virkjunarframkvæmdum yrði farið í stórfellda atvinnuuppbyggingu í Árneshreppi, var verksmiðja á Eyri til að mynda nefnd í því samhengi. Slíkt hefði auðvitað breytt stöðu Árneshrepps á mjög jákvæðan hátt til framtíðar. Núverandi áætlanir gera hins vegar ráð fyrir að rafmagnið fari út úr sveitinni. Áætlanirnar gera meira að segja ráð fyrir að rafmagnið fari, eftir því sem ég kemst næst, með háspennulínu alla leið suður í Gilsfjörð og tengist þar inn á landsnetið. Það þýðir að allt eins líklegt er að rafmagnið verði raunverulega notað til stóriðjuframkvæmda í Helguvík eða í Hvalfirði, rafmagninu er einfaldlega veitt þangað sem þörf er á því hverju sinni.

Eitt má þó vera alveg ljóst og það er að ef af virkjunni verður og rafmagnið verður leitt með tvö þúsund milljóna króna háspennulínu frá virkjuninni suður í Gilsfjörð þá verður rafmagnið aldrei notað til atvinnuuppbygginar í Árneshreppi.

Einn jákvæður punktur hefur verið nefndur í þessu ferli og það eru aukin fasteignagjöld, heyrst hefur að þau geti numið 20-25 milljónum á ári en ekki liggja fyrir nákvæmar tölur. Í nýlegri blaðagrein kom fram að Árneshreppur hefði árið 2015 fengið um 15 milljónir úr Jöfnunarsjóði, væntanlega tapast þær tekjur á móti auknum fasteignagjöldum, sem gefur þá niðurstöðu að tekjuaukningin gæti orðið 5-10 milljónir á ári?

Ég tel einfaldlega, miðað við núverandi forsendur, að virkjunin sé rangt skref fyrir samfélagið, framkvæmdin muni ekki skila neinum þeim ávinningi sem haft geti raunveruleg áhrif á byggð í sveitinni auk þess að vera til þess fallin að eyðileggja tækifæri í aukinni ferðaþjónustu.

Eru íbúar Árneshrepps raunverulega tilbúnir að fórna Ófeigsfjarðarsvæðinu fyrir kannski hálft starf, einhverjar vegabætur frá Melum í Ófeigsfjörð, einhverjar milljónir í fasteignagjöld og smalaveg? Íbúar Árneshrepps hafa alla tíð verið þekktir fyrir að lifa af landinu, í sátt við það, og skila landinu þannig til komandi kynslóða að þær geti einnig á sama hátt lifað af því. Það hlýtur því að vera krafa íbúa Árneshrepps og ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir virkjunarframkvæmdum að rafmagnið verði notað til atvinnuuppbygginar í heimabyggð, Árneshreppi.

Með vinsemd og virðingu

Hilmar Vilberg Gylfason frá Krossnesi

Jón G. Guðjónsson | sunnudagurinn 11. janúar 2015

Flugvöllurinn á Gjögri.

Haraldur Benediktsson 4. þingmaður NV kjördæmis.
Haraldur Benediktsson 4. þingmaður NV kjördæmis.

Aðsend grein frá Haraldi Benediktssyni 4. Þingmanni NV kjördæmis og nefndarmanni í fjárlaganefnd.

Undanfarin ár hefur viðhaldi á innanlandsflugvöllum ekki verið sinnt sem skyldi.  Það er mikilvægt að brjótast úr þessari kyrrstöðu og ráðast í að bæta ástand mannvirkja er tengjast innanlandsfluginu.  Það gerði meirihlutinn á Alþingi með afgreiðslu fjárlaga, fyrir jól.

Að frumkvæði fjárlaganefndar er nú ákveðið að arður af rekstri ÍSAVIA, komi í ríkissjóð.  Ætlunin er að verja þeim fjármunum til endurbóta á innanlandsflugvöllum. Vegna regluverks er þetta aðferð til að færa til hagnað af millilandaflugi til nauðsynlegra framkvæmda innanlands.  

Of lengi hefur verið dregið að ráðast í nauðsynlegar endurnýjun á flugvellinum á Gjögri.   Núverandi ástand hans veldur því að ekki virðist mögulegt að nota besta mögulega flugvélakost sem hæfir flugleiðinni. Ástæðan er að klæðningu vantar á flugbrautina en efni til klæðningar bíður tilbúið.  

Í breytingartillögu fjárlaganefndar kemur fram vilji meirihluta hennar til að bregðast við ályktun Fjórðungsþings Vestfjarða og ítrekaða baráttu sveitarstjórnar Árneshrepp um að  ráðist verði  í endurbætur á flugvellinum á Gjögri.  Í nefndarátliti meirihluta fjárlaganefndar er sagt með beinum hætti að ráðast eigi í endurnýjan búnaðar og að leggja klæðningu á flugvöllinn  Þetta eru mikilvæg skilaboð. 

Fyrir byggðina, fyrir öryggi íbúana og ekki síður fyrir mikilvægi á góðum samgöngum er nauðsynlegt að ráðist verði sem fyrst í framkvæmdir.   Ég trúi að innanríkisráðherra setji sem fyrst í gang undirbúning að þessari framkvæmd.

 

Haraldur Benediktsson

4. þingmaður NV – kjördæmis og nefndarmaður í fjárlaganefnd.T

Jón G. Guðjónsson | föstudagurinn 19. apríl 2013

Auður er lítils virði ef hann er ekki nýttur skynsamlega!

Sólrún Jóhannesdóttir.
Sólrún Jóhannesdóttir.
Aðsend grein eftir Sólrúnu Jóhanneserdóttur frambjóðanda Lýðræðisvaktarinnar í NV kjördæmi.
Auðlegð Íslendinga liggur í landinu okkar og fólkinu sem það byggir. Kostirnir sem prýða þetta land og íbúa þess eru margir en til að þeir nýtist okkur til góðs verðum við nýta þá á skynsaman hátt.  Gildir einu hvort um ræðir náttúruauðlindir eða þann auð sem býr í þekkingu og færni landsmanna.  Náttúruauðlindirnar er mikilvægt að nýta en um leið án þess að valda óafturkræfum spjöllum þannig að þær gagnist einnig komandi kynslóðum.  Á sama hátt er mikilvægt að  koma í veg fyrir stöðnun og landflótta því án mannauðsins má landið sín lítils. Þegar að kreppir eins og núna ríður á að forgangsraða þannig að auður Íslands hjálpi okkur yfir erfiðasta hjallann og skili okkur á endanum viðunandi lífsskilyrðum.  Samanburður við frændþjóðir okkar sýna að við höfum dregist hressilega aftur úr hvað varðar lífskjör og við verðum að finna leiðir til að stöðva þá þróun svo ungt fólk sjái ástæðu til að búa hér.  Það er óásættanlegt að búa við tvöfalt verð á húsnæði og mun hærra matvælaverð en þekkist í nágrannalöndunum. 

Með allar okkar náttúruauðlindir og mannauð erum við í þessari stöðu sem segir okkur að við höfum ekki haldið rétt á spilunum.  Mistök fyrri ráðamanna eiga að vera námskrá dagsins í dag.  Við viljum nefnilega ekki alltaf velja íslenskt, hver vill íslenskt vaxtastig, íslenskar efnashagssveiflur og hverjir vilja áfram notast við íslenskar skammtímalausnir?  Verðugir fulltrúar fólksins taka þjóðarhag fram yfir einkahagsmuni, það er hið eiginlega lýðræði sem þjóðin á skilið.

Við frambjóðendur Lýðræðisvaktarinnar viljum bæta íslenskt samfélag og um leið íslensk stjórnmál.  Forsenda þess að íslenskt samfélag fái notið sín er einfaldlega sá að að farið sé að vilja almennings.  Svikin kosningaloforð eru samofin þeirri vanvirðingu lýðræðisins sem við búum við.  Nú er lag að hverfa frá stjórnkerfi þar sem sérþarfir valdamikilla þrönghagsmunahópa eru teknar fram yfir hagsmuni hins almenna borgara.  Það getum við gert með aukinni aðkomu íbúanna að ákvarðanatökum í þeim málum sem skipta þjóðina og framtíð hennar mestu. Þjóðaratkvæðagreiðslur eru gott verkfæri í slíkri vegferð.  

Náttúra landsins, allt frá nytjafiskum, loft- og vatnsgæðum til okkar fjölbreytta og fallega lands, er bankainnistæða landsmanna, auður sem nota þarf á sjálfbæran og skynsaman máta. Á sama hátt þarf að  skapa starfsskilyrði þannig að mannauður þjóðarinnar nýtist og viðhaldist. Það gerum við með því að styrkja atvinnugreinar sem geta leyst af hólmi stóriðjustefnuna sem er gengin sér til húðar.  Mikil sóknarfæri liggja í uppbyggingu á þekkingariðnaði og nýsköpun sem tengist sjávarútvegi, landbúnaði og ferðaþjónustu.   Vonandi ber okkur gæfa til að nýta það sem okkur er gefið og leiðin að því marki felst í skynsamlegum langtímalausnum.

Jón G. Guðjónsson | miðvikudagurinn 17. apríl 2013

Aðsend grein frá Ólínu Þorvarðardóttur.

Ólína Þorvarðardóttir.
Ólína Þorvarðardóttir.
Jöfnum stöðuna

Vestfirðir eru svæði sem býr yfir ótal tækifærum, mannauði, dýrmætum auðlindum á borð við fiskinn í sjónum og sjálfa náttúruna sem felur í sér mikla möguleika til atvinnusköpunar ekki síst á sviði ferðaþjónustu, náttúruskoðunar, menningar  - að ónefndri sjálfri undirstöðuatvinnugrein okkar sem er sjávarútvegurinn.

 

En við stöndum við frammi fyrir áskorunum. Við búum á harðbýlu svæði þar sem fólki fækkar og atvinnulíf á erfitt uppdráttar. Samgöngur eru strjálar, raforkan ótrygg. Vestfirðir eru landsvæði sem þarf að sækja fram. Við erum svokallað varnarsvæði sem býr við ýmsar tálmanir en þær eru allar yfirstíganlegar, ef rétt er haldið á spilum og  ef rétt er gefið úr stokknum.

 

Höfuðborgin sogar til sín bæði fjármagn og fólk. Það er staðreynd að hún eyðir meiru en hún aflar ríkissjóði. Það er líka staðreynd að af hverjum tveimur krónum sem landsbyggðin aflar í ríkissjóð, fær hún aðeins aðra til baka. Þessu þurfum við að breyta.

 

Það er ekki náttúrulögmál að eitt landsvæði beri þrisvar sinnum hærri húshitunarkostnað en annað. Flutningskostnað sem hækkar vöruverð og rýrir lífskjör má lækka með góðum samgöngum. Skilyrði atvinnulífsins velta ekki síst á raforkuöryggi, góðum fjarskiptum og já, enn og aftur samgöngum. Þessi þrjú atriði eru þeir innviðir sem við verðum að hafa í lagi, svo svæðið sé samkeppnishæft, svo það geti laðað til sín atvinnuuppbyggingu og mannlíf og staðið undir þjónustu við íbúa sína.

 

Eins og sakir standa er vitlaust gefið úr stokknum. Verkefnið framundan er að breyta því. Það verkefni er hafið, og á þessu kjörtímabili hafa unnist góðir varnarsigrar.

 

Bolungarvíkurgöng urðu að veruleika - sú mikla samgöngu og umferðaröryggisbót.

 

Milljarða framkvæmdir hafa staðið yfir á Vestfjarðarvegi 60 í Barðastrandarsýslu undanfarin ár, og nú sér vonandi loks fyrir endann á þeim vandkvæðum sem uppi hafa verið varðandi leiðarval um Þorskafjörð.

 

Dýrafjarðargöng - þau náðust aftur inn á dagskrá jarðgangaframkvæmda þaðan sem þau voru horfin. Þessi mikilvæga samgöngubót sem okkur var lofað í þar síðustu kosningum að yrði lokið 2012 - voru horfin af framkvæmdaáætluninni í upphafi kjörtímabilsins. Með harðfylgi náðust þau inn aftur, og s.l. vor samþykkti Alþingi endurskoðaða samgönguáætlun um að Dýrafjarðargöngum og endurgerð Dynjandisheiðar verði lokið 2018.  Þessu þarf að fylgja fast eftir og það mun velta á þeim sem veljast til þings, nú að loknum kosningum, að tryggja að þessi mikilvæga lífæð verði tengd milli byggðarlaganna á norðan og sunnanverðum Vestfjörðum ekki seinna en 2018. Með þeirri tengingu ná byggðarlögin saman, fólks- og vöruflutningar geta átt sér stað og þar með náum við þeirri stækkun atvinnu, búsetu og umsvifa sem gerir okkur kleift að vera eitt samfélag hér á Vestfjörðum.  

 

Súðavíkurgöng komust líka á dagskrá - þau göng hafa aldrei verið á samgönguáætlun, og nú þarf að tryggja að það gerist. Ég varð þess heiðurs aðnjótandi að flytja fyrsta þingmálið sem flutt hefur verið um þetta mál í janúar síðastliðnum  - undarlegt til þess að hugsa að það skuli ekki hafa gerst fyrr, til dæmis í góðærinu fyrir hrun þegar smjör virtist drjúpa af hverju strái.

 

Þá er vert að nefna mikilvægar ákvarðanir og umbætur fyrir búsetu, atvinnu og samkeppnisskilyrði Vestfjarða.

 

Nú eru strandsiglingar að hefjast eftir áratuga hlé.

 

Fyrstu skrefin hafa verið stigin til lækkunar húshitunarkostnaðar. Ríkisstjórnin lét vinna vandaða skýrslu um aðgerðir í þeim efnum, og þeirri skýrslu þarf að fylgja eftir á næstu misserum.

 

Menntunarátakið vinnandi vegur hefur leitt af sér umtalsverða fjármuni til menntastofnana hér á svæðinu - verkefni sem sannarlega mun skila sér í auknum möguleikum fólks til þess að komast út í atvinnulífið á ný,.

 

Strandveiðum var komið á fyrir fjórum árum. Þær hafa hleypt í hafnir landsins og tryggt hráefnisframboð til fiskvinnslu í plássum þar sem fiskvinnslan lokaði yfir sumarmánuðina áður en strandveiðarnar komu til.

 

Veiðileyfagjaldið, sem lagt var á s.l. haust, mun skila okkur milljörðum árlega inn í samfélagssjóðinn. Þess vegna gat ríkisstjórnin lagt fram 3ja ára fjárfestingaáætlun um mikla styrkingu innviða, m.a. stórra samgönguframkvæmda sem munu ekki síst nýtast þessu svæði hér.

 

Öll þau verkefni sem nú eru nefnd hafa þýðingu fyrir samkeppnisstöðu Vestfjarða og möguleika til framtíðar. Þau  miða öll að því að jafna aðstöðumun og rétta hlut landsvæðis í varnarstöðu.

 

En betur má ef duga skal. Það er mikilvægt að við þá uppbyggingu sem framundan er - hvort sem hún lýtur að einu svæði eða samfélaginu öllu - séu unnið eftir grunngildum jafnaðarstefnunnar.

 

Krafan um jöfnuð er ekki klisja, hún er lífskoðun og stefna í verki, eins og dæmin sanna. Jafnaðarstefnan er leiðarljós Samfylkingarinnar.

 

Ólína Þorvarðardóttir, alþingismaður Samfylkingar í NV-kjördæmi

Jón G. Guðjónsson | miðvikudagurinn 16. janúar 2013

Aðsend grein frá Finnboga Vikar.

Finnbogi Vikar.
Finnbogi Vikar.
Makríll 2013 og tækjakaup

Vonandi verður fljótlega gefinn út kvóti í makríl fyrir árið 2013 af Steingrími J. Sigfússyni atvinnuvegaráðherra. Þá er ekki úr vegi að minna á að það er almennur vilji til þess að jafnræði verði gætt við úthlutun veiðiheimilda, ekki fáir útvaldir fái ríkulegan arð af þessari syndandi auðlind í lögsögn Íslands.

Fé frá uppboði makríl aflaheimilda til tækjakaupa

Þess vegna vil ég beina því til Steingríms J. Sigfússonar atvinnuvegaráðherra og ríkisstjórnar VG og Samfylkingarinnar að gæta jafnræðis við úthlutun veiðiheimilda í makríl og slá tvær flugur í einu höggi. Það má afla peninga til tækjakaupa fyrir Landspítalann og heilbrigðisstofnanir um land allt, sem ríkið hefur ekki lokað vegna fjárskorts, með því að bjóða upp aflaheimildir í makríl á almennum og opnum uppboðsmarkaði fyrir útgerðaraðila, fiskvinnslur og almenning og skilyrða tekjur uppboðsins fyrir veiðiheimildir í makríl 2013 til tækjakaupa á Landspítalanum og heilbrigðisstofnanir um land allt. Þannig mætti fá hugsanlega milljaraða til tækjakaupa og jafnræðis gætt við úthlutun veiðiheimilda í makríl 2013.

Aflinn seldur á fiskmarkaði - rétt markaðsverð fyrir sjómenn

Skylda ætti síðan að selja allan aflan á opnum innlendum fiskmarkaði þar allir hagsmunaaðilar í vinnslu og sölu makríls gætu boðið í aflann, hvort sem er ferskan eða frosinn, unninn eða óunnin við löndun. Það er til að tryggja gegnsæi í sölu aflans og sjómönnum markaðsverð og réttmætan aflahlut í samræmi við raunverulegt aflaverðmæti skip og báta er stunda makrílveiðar.

7 milljarðarðar ef færeyska leiðin yrði innleidd

Verðmætin út úr þessari fjáröflunarleið fyrir Landspítalann eru gríðarlega mikil. Færeyingar buðu t.d. upp hluta af makrílkvóta sínum hjá Fiskmarkaði Færeyja og með heimild í færeyskjum lögum „nr. 74 frá 6.juni 2011 um serstakar treytir fyri makrelfiskiskapi í 2011". Færeysk stjórnvöld fengu um 1 milljarð íslenskra króna fyrir 20 þúsund tonn af markíl. Ef íslensk stjórnvöld myndu bjóða íslenska makrílkvótann myndi það þýða miðað við forsendur úr færeyska uppboðinu rúmlega 7 milljarðar króna fyrir 142 þúsund tonna makrílkvóta íslendinga

5 milljarða gjöf til útgerðarmanna í uppsjávarveiði makríls

Samanlagt almennt og sérstakt veiðigjaldið af makríl mun aðeins skila tæpum 2 milljörðum króna án tillits til lækkunarheimilda samkvæmt lögum um veiðigjöld. Þarna munar meira en 5 milljörðum króna sem er verið að gefa útgerðarfyrirtækinum miðað við uppboðin hjá frændum okkar Færeyingum. Það er óskiljanlegt að íslenskt stjórnvöld og ríkisstjórn Samfylkingar og VG hafi ekki farið sömu leið og færeyskt stjórnvöld. Nýtum makrílinn til að bæta tækjakost Landspítalans og heilbrigðisstofnanna um land allt með því að halda uppboð á íslenska makrílkvótanum árið 2013.

Þessu er hér með beint til Steingríms J. Sigfússonar atvinnuvegaráðherra og ríkisstjórnarflokkanna, VG og Samfylkingarinnar.

Virðingarfyllst

Finnbogi Vikar, viðskiptalögfræðingur.

Jón G. Guðjónsson | laugardagurinn 4. febrúar 2012

Aðsend grein frá Oddnýju Þórðardóttur oddvita Árneshrepps.

Oddný Þórðardóttir á skrifstofu hreppsins.
Oddný Þórðardóttir á skrifstofu hreppsins.
Heilsársvegur í Árneshrepp á Ströndum - ákvörðun sem þarf að taka og hefja verkið árið 2012.

Í dag býr sveitarfélagið við þær aðstæður að eiga að vera eyja  þrjá mánuði á ári, þar sem við búum við G-reglu í snjómokstri. Hluti íbúa sveitarfélagsins býr við algjöra innilokun þessa þrjá mánuði á ári. Hreppsnefnd hefur ítrekað beðið um að hreppurinn verði færður upp í  F -reglu, sem ekki er talið hægt, þar sem vegurinn sé ekki þjónustufær.  Á einfaldri íslensku , það þarf að byggja veginn upp til að hægt sé að þjónusta hann. Því  ætti að vera forgangsverkefni að byrja á að byggja upp erfiða kafla af veginum á fyrirhuguðu framtíðarvegstæði, en núverandi  vegur var ruddur með jarðýtu á árunum 1960-1965.

Nú er okkur alltaf núið því um nasir að við séum svo fá.  En eins og einn góður maður sagði ,,vegurinn er ekki bara fyrir íbúa Árneshrepps heldur alla landsmenn og erlenda gesti líka".

Í sveitarfélaginu Árneshreppi eru um 40 sumarhús í eigu einkaaðila, þessi hús eru flest heilsárshús og stórar fjölskyldur sem standa að þeim. Uppbygging ferðaþjónustu hefur verið mikil, fjárfestingar þar gefa ekki arð þegar ekki er hægt að komast á staðinn. Í Árneshreppi er Norðurfjarðarhöfn og stutt á gjöful fiskimið.

Það er einhvers staðar vitlaust gefið.

Aðgerðir strax!

                                                                                   Oddný S. Þórðardóttir

                                                                                   Oddviti,  Árneshreppi.

Jón G. Guðjónsson | föstudagurinn 6. janúar 2012

G-reglan er Grýla Árneshreppsbúa.

Elísa Ösp Valgeirsdóttir skólastjóri Finnbogastaðaskóla.
Elísa Ösp Valgeirsdóttir skólastjóri Finnbogastaðaskóla.
Aðsend grein frá Elísu Ösp Valgeirsdóttur skólastjóra Finnbogastaðaskóla.
Í augum margra Árneshreppsbúa er 6.janúar ein óvinsælasta dagsetningin. Ástæðan er sú að nú er komið að þeim hluta ársins að þangað verður ekki rutt fyrr en vora tekur samkvæmt almanakinu nánar tiltekið 20. mars eða í 75 daga samfleytt. Þessu veldur að Árneshreppur fellur undir G-reglu um snjómokstur og er eina sjálfstæða sveitarfélag landsins sem þarf að lúta þeirri reglu en aðeins er um eina akleið að velja þegar kemur að því að komast til og frá hreppnum. Undanfarin ár hefur ítrekað verið þrýst á að þessi leið verði færð á sama þjónustustig og önnur sveitarfélög en ekki hefur orðið af því enn að  Árneshreppsbúar hafi verið losaðir úr klóm G-reglunnar.
Jón G. Guðjónsson | sunnudagurinn 19. desember 2010

Jólapistill.

Séra Sigríður Óladóttir.
Séra Sigríður Óladóttir.

Hér kemur Jólapistill frá séra Sigríði Óladóttur í Hólmavíkurprestakalli.

Að jötu þinni, Jesús, hér

kem ég með tómar hendur,

en hjarta mitt vill þakka þér,

fyrst þú ert til mín sendur.

Það eitt sem gefur gæskan þín

ég get þér fært. Öll vera mín

skal lofa lífgjöf þína.

Sigurbjörn Einarsson.


Í dag er fjórði sunnudagur í aðventu. Aðventan höfðar sterkt til margra, þá er eins og hugurinn sé opnari en endranær fyrir boðskap spámannsins: „Sjá konungur þinn kemur til þín." Og á hverjum jólum svörum við: „Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins." Já, við tökum vel á móti Kristi, bjóðum hann velkominn og reynum auðvitað að sýna á okkur bestu hliðarnar. Svo líða jólin, hversdagurinn tekur við og töfrar jólanna svífa fyrr en varir á braut.

En þannig á þetta auðvitað ekki að vera. Sonur Guðs kom ekki í heiminn til þess að breyta lífi mannanna fáeina daga á ári. Jesús kom til þess að breyta öllum dögum í lífi okkar.

Lífið líður hjá með ógnarhraða, æskan líður alltof fljótt. Árstíðir koma og fara. Áhyggjur og gleði liðins árs gleymast. Lífið sjálft kemur og fer. Þessi jól munu líða. Hlutir sem eru okkur mikilvægir nú hverfa og gleymast. En góðu tíðindin eru þau að við eigum Guð að sem stendur ekki á sama um okkur, Guð sem lét sér svo annt um okkur að hann sendi son sinn til að frelsa okkur. Þess vegna þurfa jólin ekki að taka enda þegar veisluhöldunum lýkur.

Ef við finnum raunverulega fyrir nærveru Jesú, sem fæddist, lifði og dó og reis upp vegna okkar, þá munu jólin ekki taka enda, hvorki að kvöldi jóladags né nokkurn tíma.

Kristur sem kom til okkar í auðmýkt á hinum fyrstu jólum vill koma til okkar nú, búa með okkur og færa okkur sömu gleði og von og hann gerði þá.

Megi Kristur vera með okkur öllum á þessum jólum og alla daga. Megi hann fá að vinna það verk í okkur sem honum var ætlað, að breyta okkur, hafa áhrif til góðs á tilveru okkar.

Guð gefi okkur náð til þess að feta í fótspor Krists, svo að við eignumst sanna og varanlega jólagleði.

Gleðileg jól!
Sigríður Óladóttir.

Jón G. Guðjónsson | fimmtudagurinn 30. september 2010

Aðsend grein frá Jóni G Guðjónssyni.

Frá vegavinnu.
Frá vegavinnu.
Hugleiðing um veginn norður í Árneshrepp.

Á dögunum fór ég suður til Reykjavíkur héðan úr Árneshreppi það er svo sem ekkert í frásögur færandi,enn var þó á leiðinni að hugsa um hverslags vegi við þurfum að búa við hér norðurfrá.

-Keyrt var um Kjörvogshlíð til Reykjarfarðar um Djúpavík yfir Veiðileysuháls um veginn sem liggur um eyðibilin Byrgisvík og Kolbeinsvík til Kaldbaksvíkur,um Kaldbaksvíkurkleyf.

Þetta var hryllileg keyrsla þessi leið,vegurinn  svo holóttur að maður hélst sér fast í stýrið til að tolla í sætinu,þótt Vegagerðin myndi hefla þessa leið myndi það varla skipta máli,því hvað á að hefla þegar ofaníburðinn vantar.

Svo þegar komið er suður fyrir Kaldbaksvíkurkleyf er loks komið á veg sem er búið að byggja upp allt til Bjarnarfjarðar,þótt um malarveg sé um að ræða,og það svona sæmilegur vegur miðað við malarveg.

Enn Bjarnafjörðurinn sjálfur og Bjarnarfjarðarháls er ömurlegur vegur þótt ekki meira sé sagt,allt niður hálsinn Steingrímsfjarðarmegin að vegamótunum Drangsnes-Hólmavík,síðan kemur smá spotti malbikaður fram hjá Bassastöðum að Selá,síðan ómalbikað að Staðará,þar sem eru vegamót Steingrímsfjarðarheiði í vestri og til Hólmavíkur í suðri.

Hluta vegarins í Bjarnarfirði er búið að byggja upp en það á að skipta um brú yfir Bjarnarfjarðarbrú og breyta staðsetningu vegarins í botni Bjarnarfjarðar að Bjarnarfjarðarhálsi,og er það tilbúið á teikniborðinu og átti að bjóða út árið 2008 en þá skall bankahrunið á.

Það þarf að klára að byggja veginn upp.

Það er nauðsynlegt að byggja veginn upp yfir Bjarnarfjarðarháls og niðrí Bjarnarfjörð.

Þegar það er búið væri hægt að setja slitlag yfir veginn allt frá vegamótunum yfir Bjarnarfjarðarháls norður um Bjarnarfjörð og allt til Byrgisvíkur,og malbika þennan veg.

Erum með eins og tvær Óshlíðar.

Það má alveg segja það að við erum með eins og tvær Óshlíðar hingað norður í Árneshrepp,ég á þá við Kaldbaksvíkurkleif og Veiðileysukleyf,þar sem er alltaf mikið um grjóthrun og Vegagerðin hefur lítið sem ekkert gert til varnar.

Þarna í þessum tveim kleifum þarf að setja grjót og snjógildrur,og eða vegskála eins og tíðkast víða á norðurlöndum.

-Þegar er búið að laga þessar ófærur og veginn yfir Veiðileysuháls og breyta honum niður Kúvíkurdal til Djúpavíkur væri búið að laga verstu ófærurnar og svo einnig Kjörvogshlíðina sem er ein snjóflóðakista.Sú leið verður alltaf til vandræða og þarf að fara yfir svonefnd Skörð til Trékyllisvíkur,úr Reykjarfirði.

Leiðina yfir Veiðileysuháls er fyrir mörgum árum komin í fjárlög,en ekkert hefur ske,það var löngu fyrir þetta víðfræga bankahrun. 

Byggja upp veginn innansveitar.

Það þarf að klára að byggja upp veginn innansveitar frá Kjörvogi og norður til Norðurfjarðar,það er ekki mikil vinna eftir,því þeim vegi verður lítið breytt frá því sem hann er nú.

Og setja slitlag yfir og malbika þann veg svo við hefðum eitthvað af malbikuðum og góðum vegum hér innan Árneshrepps.

Frá vegamótunum við Gjögur til Hólmavíkur eru nú taldir vera 90 kílómetrar.

Hugleiðing frá Jóni G Guðjónssyni í Litlu-Ávík.

 

 

 

 

Jón G. Guðjónsson | mánudagurinn 13. júlí 2009

Sjósund við Norðurfjörð.

Félagarnir eftir sund í Norðurfirði.
Félagarnir eftir sund í Norðurfirði.

Aðsend greyn Ófeigs T Þorgeirssonar.
Vil endilega koma á framfæri við ykkur Árneshreppsbúa hve frábæra sjósund-strönd þið eigið í botni Norðurfjarðar, á móts við Valgeirsstaði hús Ferðafélags Íslands.

Einnig sýndist mér botn Kaldbaksvíkur vera svipaður. Læt fylgja mynd af okkur meðlimum hjólaklúbbs, sem fara árlega um hálendið og aðra áhugaverða staði landsins, að loknu sjósundi í Norðurfirði. Skora á ykkur, og Ferðafélagið, sem hefur yfir skipti- og sturtuaðstöðu að ráða á Valgeirsstöðum, að auglýsa þennan stað sem einstakan sjósundsstað.

Á myndinni eru frá vinstri til hægri: Tryggvi Þórir Egilsson, Breki Karlsson, Ófeigur, Ólafur Þór Gunnarsson og Guðbrandur Gimmel.
Fyrir hönd hjólafélaganna.Ófeigur T Þorgeirsson.

Atburðir

« 2024 »
« Nóvember »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Úr myndasafni

  • Litla-Ávík.
  • Flotinn kominn uppí lendingu,vörina í Litlu-Ávík.
  • Séð að Melum af Hlíðarhúsunum 10-03-2008.
  • Herðubreið í miklum hafís útaf Reykjaneshyrnu.
  • Flotbryggjan í smábatahöfninni á Norðurfirði-18-08-2004.
Vefumsjón