56. Fjórðungsþing Fjórðungssambands Vestfirðinga.
Fyrirkomulag þingsins var með nokkuð breyttu sniði í ár, á föstudaginn fór fram hópavinna þar sem dregin var saman framtíðarsýn sveitarstjórnarfulltrúa á stoðkerfi atvinnu og byggðar. En seinni daginn fóru fram umræður og forgangsröðun verkefna vegna Sóknaráætlunar landshluta. Auk þeirrar stefnumótunarvinnu sem fór fram á þinginu voru einnig samþykktar eftirfarandi ályktanir.
Fjórðungsþing Vestfirðinga fagnar þeirri ákvörðun iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra að Hvalárvirkjun hafi verið sett í nýtingarflokk í þingsályktunartillögu um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Um mikið hagsmunamál Vestfirðinga er að ræða og því gleðilegt að nú sé þessi virkjunarkostur loks að verða raunhæfur.
Fjórðungsþing Vestfirðinga fjallaði um tillögur um framtíðarskipulag stoðkerfis atvinnu- og byggðaþróunar. Þingið samþykkti tillögu um að skipaður skuli starfshópur sem taki til umfjöllunar sameiningu Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða, Menningarráðs Vestfjarða, Markaðsstofu Vestfjarða og Fjórðungssambands Vestfirðinga. Sett er að markmiði að skapa stærri og öflugari einingu. Starfshópnum er ætlað að skila af sér útfærslu á þessari tillögu sem lögð verði fyrir aukaþing, samkvæmt ákvæðum 3. gr laga sambandsins, þingið skal haldið í lok október n.k.