Ákall úr Árneshreppi til ríkisstjórnar Íslands.
Varðar stöðu byggðar í Árneshreppi og þjónustu við íbúana
Íbúar Árneshrepps hafa um árabil búið við skerta þjónustu á vegum á veturna. Íbúum hefur fækkað mjög síðustu ár og má ekki síst rekja það til þeirrar staðreyndar að ungt fólk sættir sig ekki við þá algeru innilokun sem verulega skert vetrarþjónusta hefur í för með sér á tímabilinu janúar – mars ár hvert. Íbúar bundu um skeið miklar vonir við aðgerðir sbr. ályktun þingsins nr. 35/128, þann 15. mars 2003 „um aðgerðir til verndunar búsetu og menningarlandslags í Árneshreppi“[1] en því miður varð lítið sem ekkert úr efndum á grundvelli hennar.
Unnið hefur verið að verkefninu Áfram Árneshreppur sem lið í verkefnum Byggðastofnunar og samstarfsaðila, Brothættum byggðum frá árinu 2017. Mörg markmið í verkefnisáætlun snúa að samstarfi og framtaki heimamanna en þau verkefni sem hvað brýnust eru fyrir viðgang byggðarinnar eru þó stóru innviðaverkefnin sem eru á valdi ríkis og stofnana þess. Það þolir að mati verkefnisstjórnar enga bið að þessi markmið verkefnisins hljóti athygli og stuðning ríkisins. Nú er svo komið að íbúarnir óttast að byggð leggist af verði ekkert að gert. Þar með væru varanlega glötuð mikil verðmæti sem felast í menningu og mannlífi í þessu sérstæða og afar fallega byggðarlagi.
Verslun í Norðurfirði var lokað síðsumars og verslunarrekendur fluttu úr byggðarlaginu. Ekki þarf að orðlengja að þessi staða er illþolandi fyrir íbúana og fyrirsjáanlegt er að enga vöru verður að hafa nema með því að panta sendingar með flugi. Verðlagning á flugsendingum er með þeim hætti að ekki verður við unað. Í gær, 13. desember 2018 var tilkynnt að verslun í Norðurfirði hlyti 2,4 mkr styrk árlega í þrjú ár og kann verkefnisstjórnin ráðuneytinu bestu þakkir fyrir þann styrk.
Hér með fer verkefnisstjórn verkefnisins Áfram Árneshreppur þess á leit við ríkisstjórn að eftirfarandi tillögur fái þegar framgang fyrir atbeina ríkisstjórnar.
Takmarkanir á vetrarþjónustu á vegum í Árneshreppi á tímabilinu janúar til mars verði afnumdar frá og með 1. janúar 2019.
Rökstuðningur: Það er mjög íþyngjandi fyrir íbúa Árneshrepp að búa við svokallaða G-reglu vegagerðarinnar. Hún felur í sér að ekkert er mokað frá 5. janúar til 20. mars ár hvert. Í tímabundnum sparnaðaraðgerðum eftir hrun setti þáverandi ríkisstjórn á kröfu um 10% niðurskurð til ríkisstofnana, en Vegagerðin ákvað að skera niður um 50% til þjónustu í Árneshreppi. Þessi aðgerð átti að vera tímabundin, en nú hafa liðið 10 ár og verulegur efnahagsbati hefur náðst. Því teljum við að hér megi auðveldlega bæta í og taka upp mokstur tvisvar í viku eins og fyrr.
Verulegri niðurgreiðslu á flugmiðum til/frá Gjögri verði þegar í stað komið á og í því tilviki að tafir verði á framkvæmd tillögu nr. eitt verði niðurgreiðslur ekki lægri en 80%.
Rökstuðningur: Í nútíma samfélagi vilja og þurfa allir íbúar landsins að geta ferðast um landið, þó ekki væri nema til að sækja nauðsynlega þjónustu sem í æ ríkara mæli er einungis veitt á höfuðborgarsvæðinu. Það er mikið óréttlæti fólgið í því að íbúar í einu fámennasta og afskekktasta byggðarlagi landsins eigi þann eina kost að greiða tugi þúsunda fyrir flugmiða til að komast til og frá byggðarlaginu. Sökum fámennis byggðarinnar er ljóst að þessi aðgerð yrði ekki kostnaðarsöm fyrir ríkissjóð.
Verulegri niðurgreiðslu á flutningsgjöldum vöru með flugi til/frá Gjögri verði þegar í stað komið á og í því tilviki að tafir verði á framkvæmd tillögu nr. eitt verði niðurgreiðslur ekki lægri en 80%.
Rökstuðningur: Það eru 105 km frá Norðurfirði í næstu verslun og jafn vel þó vetrarþjónustu verði komið í eðlilegt horf er það löng leið á vondum malarvegum þegar um dagleg innkaup vöru til heimila er að ræða. Það er því afar mikilvægt að koma á reglulegum vöruflutningum án íþyngjandi kostnaðar. Þetta er ekki kostnaðarsöm aðgerð.
Vegagerð yfir Veiðileysuháls verði flýtt.
Gerð heilsársvegar yfir Veiðileysuháls hefur verið á Samgönguáætlun í mörg ár, en stöðugt verið frestað. Jafnan var rætt um að farið yrði í þá framkvæmd í framhaldi af vegagerð yfir Bjarnarfjarðarháls. Nú er þeirri framkvæmd að ljúka og er því lögð rík áhersla á mikilvægi þess að næsta verkefni, Veiðileysuhálsinn, dragist ekki. Vakin er athygli á því að það standa engar deilur um vegstæði á Veiðileysuhálsi, og mætti nýta fjármagn sem hefur verið ætlað í aðrar framkvæmdir í Veiðileysuháls þar til mál skýrast.
Stofnunum ríkis verði gefið svigrúm, m.a. í fjármunum, til að koma til móts við óskir íbúa Árneshrepps í helstu hagsmunamálum er varðar innviði svo sem fram kemur í verkefnisáætlun verkefnisins Áfram Árneshreppur. Má þar nefna samgöngubætur, ljósleiðara og þrífösun, auk þess sem tillit verði tekið til sérstöðu byggðarlagsins varðandi aflaheimildir og sauðfjárrækt.[2]
Rökstuðningur: Það virðist sem núverandi farvegur brothættra byggða í gegn um stýrihóp Stjórnarráðsins hafi ekki skilað tilætluðum árangri, að minnsta kosti hvað Árneshrepp varðar. Því miður hafa svör ríkisstofnana við erindum sveitarfélagsins í flestum tilvikum verið neikvæð, hafi þau fengist á annað borð. Því er óhjákvæmilegt að leita beint til ríkisstjórnar um stuðning í ofangreindum innviðamálum. Starfsmarkmið í verkefnisáætlun er lúta að ofangreindum þáttum eru meðal annars 1.1-1.4, 3.1-3.4 og 3.10-3.11.
Samþykkt á fjarfundi 14. desember 2018,
Aðalsteinn Óskarsson
Arinbjörn Bernharðsson
Eva Pandora Baldursdóttir
Eva Sigurbjörnsdóttir
Kristján Þ. Halldórsson
Kristmundur Kristmundsson
Linda Guðmundsdóttir
Sigríður Kristjánsdóttir