Arnar S Jónsson í 3-4 sæti hjá VG.
Arnar Snæberg Jónsson á Hólmavík hefur ákveðið að gefa kost á sér í 3.-4. sæti í forvali Vinstri grænna. Arnar er framkvæmdastjóri Sauðfjárseturs á Ströndum og stundar nám í tómstunda- og félagsmálafræði í HÍ. Arnar telur endurnýjunar þörf í íslenskum stjórnmálum: "Ég hef verið félagi í Vinstri grænum í nokkur ár, en hef annars ekki tekið þátt í pólitísku starfi. Einmitt nú er þörf á venjulegu fólki á þing, fólki sem hefur ekki stefnt að því í mörg ár að verða atvinnustjórnmálamenn. Fólki sem kemur með opinn huga til lausnar á þeim vandamálum sem íslenskt samfélag stendur frammi fyrir, bæði hvað varðar efnahagsmál og upprætingu á siðspillingu stjórnmála- og embættismanna."
"Endurnýjunar er þörf, en til að hún verði að raunveruleika þarf að veita fólki sem ekki er alið upp við pólitískar ræðukeppnir brautargengi. Ég tel mér það til tekna að vera ósköp venjulegur náungi; ég skulda slatta af peningum, á ekkert sparifé í banka, varð sköllóttur alltof ungur, bílinn minn er minna en hálfrar milljónar virði, ég er talsvert yfir kjörþyngd, finnst óþægilegt að klæðast jakkafötum og ég hlusta á þungarokk til að bæta geð og anda. Ég tel mig vera fulltrúa ungs fjölskyldufólks og hins "venjulega" einstaklings.
Ég aðhyllist grunnhugsjónir VG hvað varðar jafnrétti, félagshyggju, umhverfisvernd og sjálfbæra þróun. Ég legg mikla áherslu á málefni fjölskyldunnar og landsbyggðarinnar. Ég tel nauðsynlegt að lækka vexti eins skjótt og kostur er til að koma í veg fyrir gjaldþrot heimila og fyrirtækja í landinu. Um leið og skorið verður niður í ríkisrekstri þarf að tryggja að mennta- og menningarmál lendi ekki undir hnífnum; menntun er dýrmætt veganesti til framtíðar og öflug menningarstarfsemi er ekki bara arðbær atvinnugrein heldur skiptir hún fólkið í landinu miklu máli þegar kreppir að. Sérstaklega efla og tryggja starfsemi háskóla og háskólasetra í kjördæminu. Standa þarf vörð um heilbrigðiskerfið, en samhliða því þarf styðja aldraða og öryrkja og aðra sem minna mega sín. Ég tel að hátekjuskattur sé raunhæfur möguleiki til að auka tekjur ríkisins.
Að mínu áliti þarf að fá hlutlausa og marktæka aðila til að skoða hvað innganga í ESB og möguleg upptaka nýs gjaldmiðils hefur í för með sér. Í þeirri skoðun þarf sérstaklega að gæta að hlut sjávarútvegs og landbúnaðar, en í þeim atvinnugreinum þarf að athuga hvort ekki sé unnt að auka fullvinnslu hráefnis, bæði til útflutnings og sölu innanlands. Til að sporna við atvinnuleysi þarf að huga að framgangi sprotafyrirtækja, nýsköpunar og vistvæns iðnaðar, en varast skyndilausnir og vanhugsaðar framkvæmdir eins og t.d. byggingu olíuhreinsunarstöðvar á Vestfjörðum."
Arnar er 31 árs gamall og sleit barnsskónum í Steinadal í Kollafirði, en býr nú á Hólmavík. Hann hefur verið virkur í félagsstörfum og menningarlífi í gegnum tíðina og gegnir meðal annars formennsku í Menningarmálanefnd Strandabyggðar, hefur gegnt formennsku í Ferðamálasamtökum Vestfjarða og situr fyrir Strandir og Reykhólahrepp í Menningarráði Vestfjarða. Kona hans er Hildur Guðjónsdóttir grunnskólakennari og saman eiga þau synina Brynjar sex ára og Egil fjögurra mánaða. Fyrir á Arnar soninn Tómas Andra 10 ára.