AssA, þekking & þjálfun – nýjung í ferðaþjónustu í Trékyllisvík.
AssA, þekking & þjálfun er nýtt fyrirtæki í Trékyllisvík á Ströndum sem býður upp á undirbúningsnámskeið fyrir göngufólk á leið á Hornstrandir, upplifunarleiðsögn um Trékyllisvík og hópefli fyrir alla þá sem vilja eiga skemmtilegar stundir á Ströndum í sumar, hvar sem er á svæðinu frá Hólmavík norður í Ófeigsfjörð. Þjónustan er sérsniðin að þörfum viðskiptavinarins hvað varðar áherslur, tímasetningu, tímalengd og staðsetningu.
Veganesti er undirbúningsnámskeið fyrir göngufólk á leið á Hornstrandir. Tilvalið að staldra við þar sem vegurinn endar og óbyggðirnar taka við og undirbúa sig undir ógleymanlegt ferðalag. Lögð er áhersla á innra ferðalagið sem á sér stað samhliða göngu um þetta einstaka svæði. Hvernig getur þú/þið fengið sem mest út úr ferðinni? Öðruvísi námskeið fyrir bæði byrjendur og vana.
Upplifunarleiðsögn um Trékyllisvík. Eftirminnileg upplifun með fjölskyldu og vinum þar sem áhersla er lögð á að staldra við og safna öðruvísi minningum í sumarfríinu. Virk þátttaka er mikilvæg þar sem fólk fer í óvissuferð um náttúruna og fær fjölbreytt verkefni í sveitinni. Sérstök leiðsögn fyrir barnafjölskyldur.
Strandamaðurinn sterki er hópefli fyrir ættarmót, stórfjölskyldur, ferðahópa og aðra hópa sem vilja eiga skemmtilegar stundir á Ströndum í sumar. Leikir, keppnir, þrautir, tónlist ofl. Hópeflið getur farið fram hvar sem er á svæðinu frá Hólmavík norður í Ófeigsfjörð.
Stofnandi fyrirtækisins, Ingibjörg Valgeirsdóttir, uppeldis- og menntunarfræðingur með MBA próf frá Háskólanum í Reykjavík, er uppalin í Árnesi II í Trékyllisvík. Hún hefur margra ára reynslu af að ganga Strandir og Hornstrandir og hefur undanfarin ár starfað sem þjálfari í starfsmanna og stjórnendaþjálfun. Starfsfólk fyrirtækisins sem er með yfirgripsmikla þekkingu á Norður-Ströndum og Hornströndum, er lykill að fyrsta flokks persónulegri þjónustu fyrir viðskiptavini okkar sem heimsækja þetta einstaka svæði.
AssA, þekking & þjálfun er með aðsetur í Kört, minjar og handverk, Árnesi II, Trékyllisvík. Hægt er að panta þjónustu og nálgast frekari upplýsingar á heimasíðu fyrirtækisins, www.assaisland.is og í síma 451-4025.