Fleiri fréttir

Jón G. Guðjónsson | fimmtudagurinn 19. ágúst 2010 Prenta

Bolvíkingurinn Elvar Stefánsson hrútaþuklari ársins 2010.

Sigurvegarar í flokki vanra þuklara.
Sigurvegarar í flokki vanra þuklara.
1 af 2
Þá er Íslandsmeistaramótinu í hrútadómum 2010 lokið. Það er skemmst frá því að segja að mótið í ár var best sótti viðburðurinn í átta ára sögu Sauðfjársetursins og hrútadómanna, bæði hvað varðar gestafjölda og fjölda keppenda í hrútadómunum sjálfum. Samkvæmt nokkuð nákvæmri talningu má telja víst að meira en 400 manns hafi kíkt í Sævang yfir daginn. Þuklið sjálft var fært inn í tjald vegna mikillar rigningar sem féll á Strandir og nágrenni um morguninn, en veðurguðirnir skrúfuðu að mestu fyrir kranann eftir að mótshald hófst og veðrið var með miklum ágætum; heitt og milt en afar rakt.
Það var Bolvíkingurinn Elvar Stefánsson sem fór með sigur af hólmi í flokki vanra þuklara, en hann hefur keppt í þuklinu svo til frá upphafi og náði meðal annars öðru sæti árið 2005. Elvar hlaut því til varðveislu í eitt ár verðlaunagripinn Horft til himins sem er tileinkaður minningu Brynjólfs Sæmundssonar ráðunautar á Hólmavík, auk fjölda annarra verðlauna. Aðrir verðlaunahafar í vana flokknum hafa komið áður við sögu hrútadómanna, en Björn Torfason sem lenti nú í öðru sæti varð Íslandsmeistari árin 2003 og 2008 og Eiríkur Helgason hreppti titilinn árið 2004. Í flokki óvanra fór Keflavíkur/Hólmavíkurmærin Brynja Bjarnfjörð Magnúsdóttir með sigur af hólmi með aðstoð hinnar þriggja ára gömlu Emmu Ýr Kristjönudóttur á Hólmavík.
Sigurvegarar í flokki vanra hrútaþuklara:
1) Elvar Stefánsson, Bolungarvík
2) Björn Torfason, Melum í Árneshreppi
3) Eiríkur Helgason, Stykkishólmi   Sigurvegarar í flokki óvanra hrútaþuklara:
1) Emma Ýr Kristjönudóttir, Hólmavík (3ja ára) og Brynja Bjarnfjörð Magnúsdóttir, Keflavík
2) Guðný Hrund Þorsteinsdóttir, Reykjavík (11 ára)
3) Birna Ingimarsdóttir, Kaldrananesi í Bjarnarfirði
Hrútarnir sem voru dæmdir voru þeir Spaði, Grafar, Hvellur og Fleygur, en allir eru þeir í eigu Jóns Stefánssonar á Broddanesi utan þess síðastnefnda sem er í eigu Matthíasar Lýðssonar í Húsavík.  Það voru 43 sem kepptu í óvana flokknum en 28 tóku þátt í flokki hinna vönu. Verðlaun voru afar vegleg, meðal annars fengu sigurvegararnir í vana flokknum 5, 10 og 15 skammta af hrútasæði frá Sauðfjársæðingarstöð Vesturlands. Margir aðrir vinningar voru einnig veittir keppendum í þremur efstu sætum í hvorum flokki frá Bændasamtökum Íslands, Sauðfjársetrinu, Strandagaldri, Malarhorni á Drangsnesi, Hólmadrangi, Strandalambi í Húsavík og Strandakúnst á Hólmavík.
Jón Viðar Jónmundsson sem fór að vanda fyrir dómnefnd sem valdi hrúta til dómanna og venju samkvæmt voru þau Lárus Birgisson og Svanborg Einarsdóttir með Jóni Viðari í dómnefndinni. Gestum og þátttakendum dómanna er þakkað kærlega fyrir komuna og um leið eru menn boðnir velkomnir á Íslandsmeistaramót í hrútadómum árið 2011, en það verður haldið ásamt þuklaraballinu laugardaginn 13. ágúst.

Athugasemdir

Atburðir

« 2024 »
« Apríl »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Úr myndasafni

  • Íshrafl í fjörinni í Ávík.28-12-2001.
  • Villi og Úlfar á spjalli.
  • Afmælisbarnið og gestir.
  • Gamla hreppstjórahúsið á Eyri-24-07-2004.
  • Stakur borgarísjaki 3. KM NA af Reykjaneshyrnu. 02-01-2018.
  • Ís í Trékyllisvík 15-03-2005.
Vefumsjón