Erfitt með samgöngur norður í Árneshrepp.
Frá áramótum hafa flugsamgöngur gengið erfiðlega norður í Árneshrepp á Ströndum og oft hefur þurft að fresta eða aflýsa flugi.
Í umfjöllun um samgöngumál Strandamanna í Morgunblaðinu í dag segir Ásgeir Örn Þorsteinsson, markaðsstjóri Ernis, að frá áramótum hafi tíðarfarið verið einstaklega erfitt. Í gær þurfti að fresta flugi til dagsins í dag þar sem bremuskilyrði voru ófullnægjandi á flugvellinum á Gjögri.
Ásgeir segir að í vetur hafi þessu flugi verið sinnt með flugvél frá Mýflugi með sæti fyrir átta farþega. Í vikunni hafi komið upp millibilsástand og Mýflug geti ekki sinnt þessu flugi út veturinn. Því hafi verið leitað annarra leiða og niðurstaðan sé sú að þessu flugi verði að mestu sinnt með 19 farþega vélum Ernis á næstunni. Frá þessu er greint á MBL.is