Jón G. Guðjónsson | miðvikudagurinn 16. janúar 2008 Prenta

Eru íbúar Árneshrepps annars flokks fólk.

Frá höfninni á Norðurfirði.
Frá höfninni á Norðurfirði.
Hrafn Jökulsson í viðtali við Bæjarins Besta.

Ekki hefur sést tæki frá Vegagerðinni í Árneshreppi frá áramótum, segir Hrafn Jökulsson sérlegur talsmaður hreppsins. Eftir að Hrafn flutti norður á síðasta ári með konu sinni, sem er skólastjóri Finnbogastaðaskóla, var hann beðinn um að aðstoða við björgun hreppsins og hefur hann verið duglegur við að vekja athygli á vanda byggðarlagsins síðan þá. Hrafn segir að mörg falleg orð hafi fallið um Árneshrepp á Alþingi en nú verði að taka af skarið, það sé fullur vilji til góðra hluta.

„Eitt það auðveldasta og ódýrasta sem hægt væri að gera og myndi leysa stóran vanda er að hætta að misskilja snjómokstursáætlunina. Á henni stendur að það eigi að moka tvisvar í viku, vor og haust en samt er ekki mokað eftir áramót. Ég talaði nýlega við vegamálastjóra Jón Rögnvaldsson um málið, en hann gat engu lofað," sagði Hrafn aðspurður um hvað væri fyrst hægt að gera í málefnum hreppsins.

Allt frá árinu 2002 hafa Alþingismenn talað um mikilvægi hreppsins fyrir þjóðfélagið, í framhaldi af þingsályktunartillögu vestfirskra þingmanna. Lofræðan hefur verið mikil en eins og fyrr hefur verið greint frá hefur lítið orðið áþreifanlegt úr tillögum nefndar sem var skipuð í framhaldi af þingsályktunartillögunni. Hrafn segir að það sé orðið tímabært að dusta rykið af tillögum nefndarinnar frægu. „Það er ömurlegt að fá ekkert áþreifanlegt út úr svona umræðum. Það er búið að vekja vonir fólksins og þetta verður eins og sálrænt farg, því fólkið hér eldist og sér engar lausnir í sjónmáli. Íbúarnir fá það á tilfinninguna að þeir séu annars flokks og þurfa að sætta sig við þriðja flokks þjónustu."

Jón Bjarnason þingmaður Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi hefur á hverju hausti frá því þingsályktunartillagan var samþykkt lagt fram fyrirspurn á Alþingi um stöðu málsins. Í fyrstu voru viðbrögðin öll á einn veg, menn voru sammála um mikilvægi þess og sáu enga fyrirstöðu í því að eitthvað yrði að gert. Undanfarin þing hefur þó borið á því að í svörum þingmanna og athugasemdum sé minnst á það fordæmi sem sértækar aðgerðir hefðu í för með sér. Árið 2003 sagði Davíð Oddsson þáverandi forsætisráðherra í svari til Jóns: „Ég tel að sú samstaða sem náðist um þingsályktunartillöguna hafi verið afar sérstæð í þinginu og mikilvæg þannig að ríkisvaldið í hvaða mynd sem það er statt hefur hvorki efni né ástæðu til að draga lappirnar hvað þetta mál varðar."

Hrafn segir að það væri hægt að gefa gott fordæmi með sértækum aðgerðum. „Ein tillagan var að Árneshreppur verði tilraunasveitarfélag til fimm ára. Það væri hægt að skipa verkefnastjórn sem fengi fjármagn til að byggja sveitarfélagið upp og þetta gæti orðið merkileg tilraun á minnsta sveitarfélagi landsins og módel í því hvernig ætti að efla aðrar litlar byggðir."

„Það er hastarlegt þegar brýnustu aðgerðirnar eru framkvæmdar og það stendur eingöngu á framkvæmdavaldinu núna. Það eru margir sem vilja búa hér og það er hvorki flókið né dýrt að gera þeim það mögulegt. Það þarf að byrja á grunninum, eins og Össur Skarphéðinsson byggðamálaráðherra hefur lagt áherslu á í sínum málflutningi. Við þurfum síma, net, veg og þriggja fasa rafmagn," segir Hrafn Jökulsson, erindreki Árneshrepps.
Þessi frétt er af WWW.BB.ÍS
Myndin er frá Norðurfirði.

Athugasemdir

Atburðir

« 2024 »
« September »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Úr myndasafni

  • Skip á Norðurfirði 19-04-2007.
  • Mundi og Björn fara að setja lista í loft:19-02-2009.
  • Eva Sigurbjörnsdóttir oddviti Árneshrepps frá 2014 til?
Vefumsjón