Fleiri fréttir

| mánudagurinn 7. júlí 2008 Prenta

Fjölmenni á Finnbogastaðahátíð í Hótel Glym

Sól skein glatt í Hvalfirði á sunnudaginn, þegar hundruð gesta á öllum aldri streymdi í Hótel Glym til að gæða sér á kræsingum og styðja þannig málstað Guðmundar bónda á Finnbogastöðum.

Staðarhaldarar létu allan ágóða af kaffihlaðborði renna til söfnunarinnar vegna uppbyggingar á Finnbogastöðum, og stóðu auk þess fyrir veglegu listaverkauppboði.

Hótel Glymur er í eigu hjónanna Hansínu B. Einarsdóttur og Jóns Rafns Högnasonar. Bæði eiga þau ættir að rekja í Árneshrepp, hún á Gjögur, hann í Litlu-Ávík. Alls safnaðist hátt í ein milljón króna á hátíðinni í Hvalfirði.

Guðmundur Þorsteinsson, eða Mundi á Finnbogastöðum, mætti til leiks og var greinilega bæði glaður og hrærður. Hann hefur frá fyrstu stundu verið ákveðinn að koma upp íbúðarhúsi á Finnbogastöðum áður en vetur gengur í garð. Bruninn mikli, 16. júní, vakti stuðningsbylgju, enda skiptir hver bær í fámennustu sveit landsins óendanlega miklu.

Létt var yfir fólki á Hótel Glym, en alls komu um 400 gestir. Bræðurnir Ragnar og Óskar Torfasynir fóru með gamanmál og komu öllum til að syngja og tralla. Lengi verður í minnum hafður Ísbjarnarblús sem þeir fluttu með tilþrifum.

Sveinn Kristinsson frá Dröngum stjórnaði uppboði á listaverkum af einurð og festu. Hann bar samkomunni kveðju bæjarstjóra Akraness, og það með, að kaupstaðurinn Akranes léti 50 þúsund krónur renna í söfnun Félags Árneshreppsbúa.

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir braut ísinn með því að kaupa fyrsta verkið á listaverkuppboðinu, en á dögunum lét hún verðlaun sín frá skákmótinu í Djúpavík renna í söfnunina. Guðjón Arnar Kristjánsson tryggði sér hinsvegar forláta grænlenskan ísbjörn.

Á heimasíðunni Áfram Finnbogastaðir er að finna fréttir og myndir frá hátíðinni í Hótel Glym.

Athugasemdir

Atburðir

« 2023 »
« Apríl »
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30            

Úr myndasafni

  • Konur í saumaklúbb á Bergistanga 16-01-2010.
  • Unnið við klæðningu á milli sperra.08-11-08.
  • Agnes komin uppundir Hjallskerin í Ávíkinni.
  • Börn Maddýar með skemtiatriði.
  • Finnbogastaðir fyrir brunann.
Vefumsjón