Flugslysaæfing á Gjögurflugvelli.
Á morgun laugardag verður haldin flugslysaæfing á flugvellinum á Gjögri þar sem æfð verða viðbrögð við flugslysi við flugvöllinn.
Þegar slíkar æfingar eru haldnar er verið að láta reyna á samvinnu allra viðbragðseininga á svæðinu. Aðstæður á Gjögri eru þannig að þar eru ekki til staðar nema hluti hinna hefðbundnu viðbragðsaðila eins og lögregla, slökkvilið, björgunarsveitir, Rauði krossinn og heilbrigðisstarfsmenn. Verði stóráfall á Gjögri er gert ráð fyrir að aðstoð berist frá nærliggjandi svæðum, en þangað til sú aðstoð berst reynir á heimamenn. Öll heimili á svæðinu fá boð og eru almennir íbúar kallaðir á staðinn auk þess sem björgunarsveitin Strandasól er virkjuð.
Við undirbúning æfingarinnar er lögð áhersla á að sem flestir geti nýtt sér þá fræðslu sem í boði er en að mestu er um að ræða verklegar æfingar t.d. skipulag á slysavettvangi, umönnun og bráðaflokkun slasaðra, aðkomu að flugslysi, slökkvistörf og björgun. Fræðslan er í höndum ráðgjafa frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, Isavia, Slysavarnafélaginu Landsbjörg, Landspítalanum og slökkviliði Akureyrar.