Flutningarekstur KSH sameinuð Vörumiðlun ehf á Sauðárkróki.
Undanfarnar vikur hafa staðið yfir viðræður milli Kaupfélags Steingrímsfjarðar og Vörumiðlunar ehf. á Sauðárkróki um að Vörumiðlun ehf. taki við flutningarekstri kaupfélagsins. Viðræður gengu vel og náðist sátt um samninga á milli viðkomandi aðila í lok síðustu viku. Skrifað var undir samninga þann 27. nóvember síðastliðinn um að Vörumiðlun ehf. taki alfarið yfir allan flutningarekstur kaupfélagsins frá og með 1. desember 2009.
Kaupfélag Steingrímsfjarðar eignaðist sína fyrstu bifreið árið 1942 og hefur verið með bílarekstur allar götur síðan eða í um 67 ár. Fyrst um sinn var einungis um akstur innan héraðs að ræða en eftir að félagið eignaðist sína fyrstu yfirbyggðu bifreið árið 1962 hófust reglulegar áætlunarferðir milli Hólmavíkur og Reykjavíkur. Þetta skref sem nú er tekið markar því tímamót í rekstri Kaupfélags Steingrímfjarðar.
Vörumiðlun ehf. var á stofnuð árið 1996 með samruna Flutningadeildar KS og Vörufl. Magnúsar Svavarssonar á Sauðárkróki. Varð þá þegar til öflugt flutningafyrirtæki með afkastamikinn flota flutningatækja af ýmsu tagi. Á árinu 2004 voru síðan flutningafyrirtækin Húnaleið á Skagaströnd og Tvisturinn á Blönduósi sameinuð Vörumiðlun. Að endingu var flutningadeild KVH á Hvammstanga seld Vörumiðlun. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru að Eyrarvegi 21 á Sauðárkróki en að auki hefur fyrirtækið húsnæði á Blönduósi og á Skagaströnd.
Undanfarin ár hafa verið Kaupfélaginu erfið í rekstri hvað snýr að flutningunum og því er rökrétt skref að efna til samstarfs við sterkan flutningsaðila, sem Vörumiðlun er, við að sinna þeirri þjónustu sem félagið hefur verið að veita á hagkvæmari máta. Kaupfélag Steingrímsfjarðar mun hér eftir verða afgreiðsluaðili Vörumiðlunar ehf. á Hólmavík og verður óbreytt fyrirkomulag frá því sem verið hefur hvað varðar þjónustu, áætlanir og afgreiðslu. Þá verða bílstjórarnir þeir sömu og verið hefur. Það er von Kaupfélags Steingrímsfjarðar og Vörumiðlunar ehf. að samstarfið verði farsælt og að viðskiptavinir beggja aðila verði fyrir sem minnstum óþægindum á meðan þessar breytingar ganga yfir.
Kaupfélagið vill þakka öllum flutningskaupum ánægjuleg viðskipti á liðnum árum og jafnframt bjóða Vörumiðlun velkomna á Strandirnar. Einnig þakkar Kaupfélagið bílstjórum sínum, þeim bræðrum Sigurði Árna og Ágústi Óskar Vilhjálmssonum, fyrir sín góðu störf og óskar þeim velfarnaðar í starfi hjá nýjum vinnuveitanda.