Jón G. Guðjónsson | föstudagurinn 29. júní 2012
Prenta
Hamingjudagar á Hólmavík um helgina.
Hamingjan svífur og sólin skín á Hólmavík þessa dagana, en þar eru Hamingjudagar nú haldnir í áttunda sinn. Hátíðin nær hámarki nú um helgina, en þá mætir m.a. töframaðurinn Ingó Geirdal á svæðið með magnaða töfrasýningu, KK heldur ókeypis tónleika fyrir alla gesti hátíðarinnar, Leikhópurinn Lotta sýnir Stígvélaða köttinn, Hvanndalsbræður spila á stórdansleik í félagsheimilinu, Sauðfjársetur á Ströndum heldur sína árlegu Furðuleika og fjölmargar listsýningar verða sýndar. Þá er einnig hægt að fara í gokart, siglingar, Hamingjuhlaup og ýmislegt annað svo fátt eitt sé nefnt, að ógleymdum forsetakosningum sem eru mikilvægur hluti af dagskránni. Heimamenn standa einnig sjálfir fyrir afskaplega fjölbreyttum og skemmtilegum atriðum.
Búist er við talsverðum fjölda manns, enda spáin fín og stemmningin góð. Ekki má síðan gleyma að minnast á Hnallþóruhlaðborð að kveldi laugardags, en þá bjóða íbúar í Strandabyggð öllum gestum Hamingjudaga upp á ókeypis kræsingar í tertuformi. Dagskrá hátíðarinnar má nálgast á vefnum www.hamingjudagar.is. Segir í fréttatilkynningu.