Harmonikku og gítarleikur í Melarétt.
Hilmar Hjartarson frá Steinstúni er duglegur að koma í réttir í sinni gömlu heimasveit. Alltaf er Harmonikkan með í för og Hilmar mætti í dag í Melarétt sem svo oft áður og þandi harmonikkuna í réttunum. Einnig kom Ágúst Guðmundsson sem ættaður er frá Kjós við Reykjarfjörð og spilaði á gítar. Margir góðir söngmenn eru í Árneshreppi og var vel tekið undir við harmonikku og gítar leik þeirra félaga Hilmars og Gústa, og ekki var verra að leitarpelinn var tekin upp, söngvatnið farið að renna um æðar manna.
Hér kemur smá vísa sem ber nafnið: Ég nestispoka á baki ber.
Ég nestispoka á baki ber
og bregð mér uppá fjöll
og fjöldi álfa fagnar mér
og ferleg hamratröll.
Svo líða dagar, líða ár,
og lítill verður stór.
En oft man halur hærugrár
Hvar hann sem drengur fór.
(höfundur ókunnur.)