Fleiri fréttir

Jón G. Guðjónsson | sunnudagurinn 19. desember 2010 Prenta

Jólapistill.

Séra Sigríður Óladóttir.
Séra Sigríður Óladóttir.

Hér kemur Jólapistill frá séra Sigríði Óladóttur í Hólmavíkurprestakalli.
Jólapistillinn er einnig aðgengilegur undir Aðsendar greinar hér til vinstri á vefnum:

Að jötu þinni, Jesús, hér

kem ég með tómar hendur,

en hjarta mitt vill þakka þér,

fyrst þú ert til mín sendur.

Það eitt sem gefur gæskan þín

ég get þér fært. Öll vera mín

skal lofa lífgjöf þína.

Sigurbjörn Einarsson.


Í dag er fjórði sunnudagur í aðventu. Aðventan höfðar sterkt til margra, þá er eins og hugurinn sé opnari en endranær fyrir boðskap spámannsins: „Sjá konungur þinn kemur til þín." Og á hverjum jólum svörum við: „Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins." Já, við tökum vel á móti Kristi, bjóðum hann velkominn og reynum auðvitað að sýna á okkur bestu hliðarnar. Svo líða jólin, hversdagurinn tekur við og töfrar jólanna svífa fyrr en varir á braut.

En þannig á þetta auðvitað ekki að vera. Sonur Guðs kom ekki í heiminn til þess að breyta lífi mannanna fáeina daga á ári. Jesús kom til þess að breyta öllum dögum í lífi okkar.

Lífið líður hjá með ógnarhraða, æskan líður alltof fljótt. Árstíðir koma og fara. Áhyggjur og gleði liðins árs gleymast. Lífið sjálft kemur og fer. Þessi jól munu líða. Hlutir sem eru okkur mikilvægir nú hverfa og gleymast. En góðu tíðindin eru þau að við eigum Guð að sem stendur ekki á sama um okkur, Guð sem lét sér svo annt um okkur að hann sendi son sinn til að frelsa okkur. Þess vegna þurfa jólin ekki að taka enda þegar veisluhöldunum lýkur.

Ef við finnum raunverulega fyrir nærveru Jesú, sem fæddist, lifði og dó og reis upp vegna okkar, þá munu jólin ekki taka enda, hvorki að kvöldi jóladags né nokkurn tíma.

Kristur sem kom til okkar í auðmýkt á hinum fyrstu jólum vill koma til okkar nú, búa með okkur og færa okkur sömu gleði og von og hann gerði þá.

Megi Kristur vera með okkur öllum á þessum jólum og alla daga. Megi hann fá að vinna það verk í okkur sem honum var ætlað, að breyta okkur, hafa áhrif til góðs á tilveru okkar.

Guð gefi okkur náð til þess að feta í fótspor Krists, svo að við eignumst sanna og varanlega jólagleði.

Gleðileg jól!
Sigríður Óladóttir.

Athugasemdir

Atburðir

« 2024 »
« Nóvember »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Úr myndasafni

  • Hafísjaki 6 KM vestur af Sæluskeri. 27-08-2018
  • Árneskirkja sú yngri:20-06-2010.
  • Áfram er steypt.06-09-08.
  • Kristmundur og Kristján horfa glaðbeittir í myndavélina.12-12-2008.
  • Búið að setja salerni.01-05-2009.
Vefumsjón