Jón Kr. mætir á „miðnætursviðið“ á Árshátíð félags Árneshreppsbúa.
Jón Kr. Ólafsson, stórsöngvari frá Bíldudal, mætir á „miðnætursviðið" á árshátíð félags Árneshreppsbúa, sem fram fer í Ýmishúsinu við Skógarhlíð, annað kvöld, laugardaginn 17. mars. Hann ætlar að syngja nokkur lög af sinni alkunnu snilld. Hljómsveitin Blek og byttur mun sjá um undirleik hjá Jóni Kr en sveitin sú leikur fyrir dansi á árshátíðinni. Jón Kr. ætlaði að skemmta á árshátíðinni í fyrra en forfallaðist á síðustu stundu og þótti það leitt. Þegar Jón Kr frétti af árshátíðinni þetta árið vildi hann endilega bæta fyrir fjarveru sína á síðasta ári og skemmta að þessu sinni. Boð Jóns Kr. var umsvifalaust þegið með þökkum og er stjórn Félags Árneshreppsbúa stolt yfir að geta bætt topp skemmtiatriði inn á dagskrá árshátíðarinnar á ellefu stundu. Aftur er minnt á ballið á árshátíðinni sem hefst fljótlega eftir gestir hafa lokið við að matast. Ballgestir ættu að ná skemmtun Jóns Kr. komi þeir fyrir miðnætti. Verð á dansleikinn er 2.500 kr. Posi verður á staðnum og því vandalaust að greiða með kortum. Lokað hefur verið fyrir sölu aðgöngumiða í matinn. Það verður rífandi stuð og stemning í Ýmishúsinu annað kvöld. Sjáumst eldhress, stjórn Félags Árneshreppsbúa.