Jón G. Guðjónsson | mánudagurinn 16. desember 2013 Prenta

Lífsháski – unglingaspennusaga.

Lífsháski eftir Halldór Svavarsson. Mynd SH.
Lífsháski eftir Halldór Svavarsson. Mynd SH.
1 af 2

Elsti „ungi“ rithöfundur landsins með sína fyrstu bók. Út er komin hjá Óðinsauga unglingaspennusagan Lífsháski eftir Halldór Svavarsson. Þetta er fyrsta bók höfundar sem er á áttræðisaldri. Sagan segir af þremur systkinum sem fara í dálitla sjóferð sér til skemmtunar og sögusviðið er norðurströnd Íslands í svartasta skammdeginu. Bilaður viti, hafrannsóknarskip sem fær á sig brotsjó, hafís, hættuleg sker og endalaus vetrarnóttin gera ferðina að háskalegu ævintýri. Þessi saga af mannraunum, þrautseigju, kjarki og baráttu upp á líf og dauða heldur lesendum í heljargreipum frá fyrstu blaðsíðu. Þetta er bók fyrir hugrakka unglinga, skrifuð af höfundi sem þekkir af eigin reynslu hversu óvægin og viðsjárverð Norðurhöf geta verið. Höfundurinn, Halldór Svavarsson, er alinn upp í sjávarþorpi þar sem brimsorfnir sjávarhamrar voru leikvöllurinn. Þráður sögunnar er spunninn úr hans eigin reynslu af sjómennsku og mannraunum í samblandi við einstaka frásagnargáfu. Halldór Svavarsson er fæddur og uppalinn í Vestmannaeyjum á eftirstríðsárunum. Rétt eins og aðrir ungir menn fór hann til sjós og stofnaði fjölskyldu. Nótt eina þurfti hann að flýja ógnarkraft náttúruaflanna þegar eldur gaus úr iðrum jarðar, fjölskyldan missti heimili sitt og varð að byrja upp á nýtt á nýjum stað. Síðar varð Halldór virtur kaupmaður í Reykjavík. Hann hefur búið í Hafnarfirði um áratugaskeið, en tengslin við æskuhagana hafa aldrei rofnað. Hann hefur alla tíð skrifað og sagt sögur en aldrei fyrr gefið út skáldsögu.

 

„Skrifa þegar ég er ekki í barnaafmælum“

Spurður að því hvað komi til þess að hann sendi frá sér sína fyrstu skáldsögu á gamals aldri segist Halldór alla tíð hafa haft gaman af að skrifa. „Á unglingsaldri las ég mikið og lifði mig þá oft inn í líf persónanna ef þær voru áhugaverðar og mér að skapi. Þegar börnin mín voru lítil þá sagði ég þeim sögur eins og foreldrar gjarnan gera og oft gegnum tíðina skrifaði ég niður þessar sömu sögur eða aðrar sem mér komu í hug.“

 

En sagnagerðin er eldri en börnin, enda er Halldór sagnamaður af innri köllun: „Fyrstu árin í búskapnum sagði ég konunni minni oft sögur, ég held að það hafi verið fyrst þá sem hún varð verulega ástfangin.“

 

Hins vegar hefur Halldór, þrátt fyrir sagnagáfuna, ekki gefið út bók fyrr en nú. „Ég hef aldrei fyrr lokið við neitt sem ég hef verið að skrifa, brauðstritið tók sinn tíma og sat alltaf í fyrirrúmi. Það er fyrst núna sem ég er í fullu starfi við að gera ekki neitt. Nú á ég fullt af börnum, barnabörnum og langafastrák.“

 

En hvernig setur maður saman spennusögu? „Ég sit við að skrifa þegar ég er ekki í barnaafmælum og geri eingöngu það sem mér þykir skemmtilegt. Ég kann engar formúlur um bókaskrif og veit hvorki um byrjun, miðkafla eða hvort við hæfi er að láta fólk kyssast í endinn eða þá að handtaka eitthvern skúrk. Því skrifa ég bara eins og mér þykir það skemmtilegast sjálfum,“ segir Halldór Svavarsson.

 

Hann á fjögur börn, ásamt konu sinni Vigdísi Ingibjörgu Ásgeirsdóttur, en sonur þeirra Svavar Halldórsson, fyrrum fréttamaður gaf út Íslensku hamborgarabókina fyrr á árinu.

Athugasemdir

Atburðir

« 2024 »
« September »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Úr myndasafni

  • Í Simonarpás er aðeins ein stór spíta.
  • Ástbjörn smiður á einni hækju.08-11-08.
  • Hurð á geymslu NA,18-11-08.
  • Borgarís útaf Ávíkinni 07-04-2004.
Vefumsjón