Mikið til fært allan mánuðinn.
Vegurinn norður í Árneshrepp hefur verið mikið til fær eftir að óveðurskaplanum lauk í fyrstu viku mánaðarins,en þá var mokað norður. Síðan hefur verið mikið til fært,en í fyrstu var mjög svellað og stundum einhver snjóþekja eða þæfingur. Í gær var talin þæfingur norður í Reykjarfjörð. Ekkert verður mokað aftur samkvæmt þessari G-reglu fyrr en 20.,mars. Innansveitar hefur verið mikið til auður vegur eftir að svellalög hurfu í þíðviðrinu nú undanfarið,en vegir þá mjög blautir og aurbleyta. Talsvert grjóthrun er alltaf í svona veðráttu í svonefndum Urðum sem er á milli Mela og Norðurfjarðar,misjafnlega mikið en oft allsæmilegir hnullungar og minni salli með sem fer ílla með dekk. Vegagerðin er með tæki fyrir norðan,en að láta hreinsa grjótið er oft gert seint og ílla. Vegagerðin lét nú samt sandbera þar sem hálkan var verst í daginn.