Jón G. Guðjónsson | þriðjudagurinn 16. desember 2008 Prenta

Mikilvægi matvælaframleiðslu á Vestfjörðum.

Langþráð tækifæri

 

Vestfirðingar láta ekki deigan síga og líta á núverandi efnahagsástand sem langþráð tækifæri til að markaðssetja íslenskar hágæða afurðir frá Vestfjörðum. Mikilvægi matvælaframleiðslunnar og áhrif hennar á hagvöxt virðist oft hafa gleymst þar til nú. Fjölmiðlar og stjórnvöld fjalla nú um raunveruleg verðmæti og grunnstoðir atvinnulífsins og vilja hlúa betur að innlendum atvinnugreinum, td. matvælaframleiðslu.
Matvælaframleiðsla er hlutfallslega stærri á Vestfjörðum í samanburði við önnur landsvæði og greiðir þriðjung launa. Þá er ótalið fiskveiðar og önnur afleidd störf s.s. hótel- og veitingahúsarekstur, verslun og flutningsþjónusta.
Veiðar og vinnsla á sjávarafurðum, landbúnaðarframleiðsla og öflun matartengdra hlunninda hafa því löngum verið undirstöðuatvinnugreinar hér á Vestfjörðum. Vestfirðingar búa yfir mikilli þekkingu á sviði matvælaframleiðslu og hafa fulla burði til að hasla sér enn frekari völl á þessu sviði. Sérstök tækifæri liggja í hrífandi náttúru, óspilltu dýralífi og kraftmikilli menningarsögu.
Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða hefur að undanförnu tekið að sér að skoða þessa þætti sérstaklega.


Hvar er best að byrja? Forverkefni í matartengdri ferðaþjónustu.


Fjölmörg verkefni sem fela í sér þróun á matvælum eru nú þegar farin af stað á Vestfjörðum og má þar nefna áframrækt á þorski, bleikjueldi og væntanlega kræklingarækt sem munu skapa mikla sérstöðu í framleiðslu. Önnur sjálfstæð verkefni má nefna s.s. sérhæfða framleiðslu á lamba- og kindakjöti en mikill áhugi virðist vera á vöruþróun og heimavinnslu afurða. Auk þess vinna Drangsnesingar að vöruþróun á grásleppuafurðum, Patreksfirðingar skoða tækifæri í tengslum við steinbítinn að ógleymdum sólþurrkaða saltfiskinum á Ísafirði. Hrein náttúra Vestfjarða og lífræn vottuð landssvæði skapa auk þess tækifæri til að búa til lífrænar afurðir eins og bláber, krydd, te og jurtaveigar og fleiri afurðir í landbúnaði í hæsta gæðaflokki.
Nýverið reið Atvest á vaðið með forverkefni í matartengdri ferðaþjónustu. Ferðamönnum á Vestfjörðum fer stöðugt fjölgandi sem er tækifæri til að kynna matvöru með sérkennum hvers svæðis fyrir sig. Þannig nýtist hugmyndaflug heimamanna í vöruþróun, hönnun og framsetningu sem eykur verðmæti vörunnar og sýnileika staðbundinnar matarmenningu svæðisins. Settur hefur verið af stað forverkefnishópur sem kemur úr röðum vestfirskra matvælaframleiðenda og framreiðenda ásamt Atvest Samstarfið mun ná til fyrirtækja og einstaklinga í vinnslu á fiski, kjöti, mjólkurafurðum, grænmeti, drykkjarvöru og fleiri afurðum ásamt verslunum, ferðaþjónustuaðilum og veitingastöðum.

Markmið verkefnisins er fyrst og fremst að auka veltu og söluhagnað á vestfirskum matvælum til ferðamanna, heimamanna og neytenda almennt. Fjölmargir framleiðendanna eru smáir og því er samstarf þeirra mikilvægt til að auka verðmæti á eigin framleiðslu. Þeir geta sérhæft sig í framleiðslu fyrir minni markaði, t.d. ferðaþjónustuna. Þannig hafa þeir áhrif á verð og útlit vörunnar, þá getur sérstaða hvers framleiðanda betur fengið að njóta sín og rekjanleiki afurða orðið meiri.
Með slíku samstarfi má sameinast um ákveðin verkefni eins og vöruþróun, uppsetningu og samnýtingu á framleiðslutækjum, markaðsrannsóknir, sameiginlega markaðsetningu á vörumerkjum og skipulagða dreifingu. Með þessu verður staðbundin matvælaframleiðsla sýnilegri, verðmætaukning til framleiðenda meiri og aðgengi að vörunni betri.


Stendur nýsköpun og vöruþróun ein á báti?


Matvælaframleiðsla Vestfjarða byggir gjarnan á vinnuháttum og vinnsluaðferðum sem eru mjög hefðbundnar, en samhliða því hafa heimamenn unnið áhugaverða vöruþróun á matvælum sem sannarlega kitla bragðlaukana. Þessum verkefnum þurfum við að hlúa sérstakleg að.
Undanfarin ár hefur hlutfallslega litlu fjármagni verið beint í nýsköpun, rannsóknir og vöruþróun á matvælum á Vestfjörðum. Töluvert hefur verið lagt í tækninýjungar til að lágmarka kostnað og auka gæði í framleiðslu, en of lítið hefur farið fyrir þróun sem leiðir til aukinnar verðmætasköpunar á hráefninu og fullvinnslu afurða.
Þá veldur arðsemishagræðing sláturhúsa og flókið regluverk þeirra því að vestfirskir bændur eru nú tilneyddir til að senda allt sitt búfé til slátrunar á Suðurlandi eða Norð-Vesturlandi þar sem ekkert starfandi sláturhús er á Vestfjöðrum. Hráefnið er því flutt af svæðinu og lítil sem engin frekari vöruþróun eða atvinnutækifæri skapast í kjölfarið. Flóknar reglugerðir sem eiga réttilega að tryggja hollustueftirlit og samkeppnisfærni okkar á erlendum mörkuðum hamla einnig nýsköpun og vexti í matvælaframleiðslu hér á landi en einfalda þarf íslenska regluverkið þannig að það fæli ekki viljuga aðila frá nýsköpun, t.d. minni sérhæfð sláturhús og afurðavinnslur.

 

Ávinningur allra íbúa á Vestfjörðum


Ávinningur verkefnis í matartengdri ferðaþjónustu er ekki aðeins aukin verðmæti matvælaframleiðenda og þjónustuaðila. Heldur er langtíma markmið verkefnisins að skila ávinningi til allra íbúa Vestfjarða með fjölgun starfa, fjölbreyttari atvinnutækifærum, nýjum menntunartækifærum fyrir alla aldurshópa, sem og auknum lífsgæðum fyrir alla íbúa Vestfjarða.
Með öflugu samhæfðu átaki aðila í greininni, Atvest og annarra stofnanna eru tækifærin í tengslum við matvælaframleiðslu og matartengda ferðaþjónustu gríðarleg. Með úrvals hráefni og samstilltu átaki aðila í greininni að vopni er engum vafa undirorpið að sóknartækifæri eru í atvinnusköpun á Vestfjörðum.


Ásgerður Þorleifsdóttir, Guðrún Eggertsdóttir og Viktoría Rán Ólafsdóttir
Verkefnastjórar Atvest.

 

Athugasemdir

Atburðir

« 2024 »
« September »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Úr myndasafni

  • Stærra brotið úr jakanum í fjörinni.18-12-2010.
  • Naustvík-16-08-2006.
  • Flugstöðin Gjögurflugvelli.
  • Jólaséría á Möggustaur-veðurhúsið-Reykjaneshyrna.
  • Hurð á geymslu NA,18-11-08.
Vefumsjón