Nýr eigandi að Reykjanesi.
Eyðijörðin Reykjanes í Árneshreppi er búin að vera á sölu í allnokkurn tíma,jarðeigendur voru margir og engin af þeim vildu nýta jörðina að neinu leyti.Því ákváðu jarðeigendur að selja jörðina.
Ásett verð á jörðina var tuttugumilljónir króna,en var seld á talsvert lægri upphæð.
Í dag var skrifað undir kaupsamning á jörðinni,kaupandi var Samúel Vilberg Jónsson pípulagningarmeistari í Hafnarfirði.
Villi eins og hann er kallaður hér í Árneshreppi er frá Munaðarnesi hér í sveit.
Eyðijörðin Reykjanes liggur á milli Litlu-Ávíkur í vestri og Gjögurs í austri,engin hús eru á jörðinni nothæf,en jörðin þykir mikil hlunnindajörð aðallega vegna rekans,einnig eru heitar uppsprettur í Laugarvík og í Akurvík,þar sem landamerki Reykjanes og Gjögurs eru.
Eitthvað hefur það kitlað taugar Villa pípara að heitt vatn er á landareigninni.
Sigursteinn Sveinbjörnsson bóndi í Litlu-Ávík hefur haft Reykjanesið á leigu til fjöldra ára,aðallega vegna rekans,túna og beitarlands.