Fleiri fréttir

Jón G. Guðjónsson | mánudagurinn 17. júlí 2017 Prenta

Rjúkandi, samtök um vernd náttúru, menningarminja og sögu í Árneshreppi stofnuð.

Niðri Rjúkjandi. Mynd Vesturverk.
Niðri Rjúkjandi. Mynd Vesturverk.

07.07.2017 voru Rjúkandi, samtök um verndun náttúru, menningarminja og sögu í Árneshreppi stofnuð í Árnesi í Trékyllisvík. Að stofnuninni stóð hópur fólks sem telur þessum málaflokkum ábótavant á svæðinu sérstaklega í ljósi áforma Vesturverks um virkjun Hvalár, Rjúkandi og Eyvindarfjarðarár. Hluti hópsins stóð einnig að málþinginu Arfleifð Árneshrepps sem haldið var í félagsheimilinu í Árnesi helgina 24. og 25. júní sl.

Á málþinginu, sem var tvískipt, var fyrirtækjum, stofnunum, sveitarstjórn Árneshrepps og landeiganda í Ófeigsfirði gefinn kostur á að kynna sín sjónarmið og svara spurningum um fyrirhugaðar virkjanaframkvæmdir í Ófeigsfirði fyrri daginn en síðari daginn var einstaklingum boðið að flytja hugvekjur og erindi. Um 70 manns sóttu málþingið en á annað þúsund sáu beint streymi á facebook síðu málþingsins.

Ellefu manns tóku til máls síðari daginn, mest heimafólk og fólk með sterkar rætur á svæðinu. Einnig fólk sem hefur reynslu af því að verja land sitt fyrir virkjunaraðilum sem lofa gulli og grænum skógum, því þessi saga er hvorki ný né einstök. Heiða Guðný Ásgeirsdóttir bóndi á Ljótarstöðum í Skaftártungu ræddi um baráttu hennar og sveitunga hennar gegn virkjanaáformum. Viðar Hreinsson talaði um Jón lærða, náttúrur náttúrunnar og Jón Jónsson þjóðfræðingur ræddi m.a. um menningararf og menningarminjar sem grundvöll samfélags- og atvinnusköpunar.

Í máli einstaklinganna kom fram nokkuð afdráttarlaus andstaða við Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði og efasemdir um jákvæð áhrif framkvæmdarinnar á byggðalagið. Virkjun Hvalár hefur staðið til um langt skeið, margir íbúar í Árneshreppi telja að á þeim tíma sem virkjunin hefur verið í umræðunni hafi svo margt breyst og komið í ljós að forsendur fyrir henni séu algjörlega brostnar.

Virkjunin mun ekki skapa nein störf í hreppnum á rekstrartíma sínum, engar vegabætur á Strandavegi fylgja framkvæmdinni og afhendingaröryggi rafmagns í Árneshreppi mun ekki batna með virkjuninni. Á stuttum tíma hefur virkjunin stækkað úr 37mgw í 55 og kemur því til með að framleiða mun meiri raforku en þörf er fyrir á Vestfjörðum. Nú þegar framleiða Íslendingar margfalt meiri raforku en not eru fyrir í landinu.

Umhverfisáhrif virkjanaframkvæmdanna eru metin sem afar neikvæð og óafturkræf í álitsgerð Skiplugasstofnunnar. Áhrifasvæði umsvifanna mun ná yfir 37% af heildarstærð sveitarfélagsins og sker í sundur stærsta ósnortna víðerni Vestfjarða. Ósnortin víðerni í heiminum fara sífellt minnkandi samhliða ágangi mannsins á náttúruna og í þeim eru fólgin ómetanleg auðæfi á Íslandi eins og kemur m.a. fram í nýlegri skýrslu OECD. Slík svæði eru auðlind fyrir fólkið í landinu, ferðaþjónustu framtíðar og stofnun þjóðgarðs á svæðinu sem hefur verið rædd sem raunhæfur möguleiki.

Vegna þess mikla meðbyrs sem undirbúningshópur málþingsins fann fyrir á þinginu og í kjölfar þess, allstaðar að af landinu og víða erlendis frá, var ákveðið að reyna að virkja samtakamátt fólksins og stofna samtök um verndun náttúru, menningarminja og sögu í Árneshreppi. Þeim var gefið nafnið Rjúkandi eftir einni þeirra áa sem stendur til að virkja á Ófeigsfjarðarheiði.

Stofnendur samtakanna töldu ríka þörf vera fyrir afl af þessu tagi sem andstöðu við þá einkaaðila sem áforma virkjun í Árneshreppi. Það hefur sýnt sig að virkjunaraðilar leitast við að fegra sína hlið málsins og reyna eftir fremsta megni að kæfa alla umræðu um náttúruvernd og þau umhverfisspjöll sem þeir áforma að vinna á náttúruperlum í Árneshreppi.

Heimasíða samtakanna www.rjukandi.org opnar á næstu dögum, þar er hægt að nálgast frekari upplýsingar um Rjúkanda, lög og stofnmarkmið samtakanna. Rjúkandi stendur öllum opinn sem geta samsamað sig stefnu samtakanna, þeir sem vilja gerast stofnfélagar geta gert það á heimasíðunni eða í gegnum netfangið arneshreppurogframtidin@gmail.com.

Athugasemdir

Atburðir

« 2024 »
« Maí »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Úr myndasafni

  • Rafmagnstafla komin upp.12-12-2008.
  • Séð til Reykjaneshyrnu og Ávíkurnar.
  • Íshrafl í fjörinni í Ávík.28-12-2001.
  • Hafís og uppskipunarbátur á leið í land.
  • Kort Árneshreppur.
  • Börn Maddýar með skemtiatriði.
Vefumsjón