Fleiri fréttir

| fimmtudagurinn 24. júní 2010 Prenta

Skemmtileg og vel heppnuð skákhátíð

Kristjana Ásbjörnsdóttir og Jóhann Hjartarson.
Kristjana Ásbjörnsdóttir og Jóhann Hjartarson.
1 af 5

Friðrik Ólafsson hefur komið til Galapagoseyja, en leið hans lá í fyrsta skipti á Strandir um síðustu helgi þegar slegið var upp afmælismóti honum til heiðurs í gömlu síldarverksmiðjunni í Djúpavík. Friðrik, sem er 75 ára, var fyrsti stórmeistari Íslendinga og um árabil meðal sterkustu skákmanna heims. Margir góðir gestir tóku þátt í hátíðinni, m.a. Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra, sem lék fyrsta leikinn fyrir Friðrik í skák hans við Árnýju Björnsdóttur.

Fleiri kempur íslenskrar skáksögu mættu til leiks í Djúpavík og voru keppendur alls 40. Helgi Ólafsson freistaði þess að sigra í þriðja skipti í röð í gömlu síldarverksmiðjunni, en Jóhann Hjartarson sló honum við að þessu sinni. Jóhann tefldi af miklu öryggi, tapaði ekki skák og hlaut 8 vinninga af 9 mögulegum. Helgi fékk 7,5 og afmælisbarnið Friðrik 6,5.


Fimm skákmenn hlutu 6 vinninga: Hlíðar Þór Hreinsson, Róbert Lagerman, Guðmundur Kjartansson, Sigurður E. Kristjánsson og Sigríður B. Helgadóttir. Efstur Strandamanna varð Jakob Thorarensen frá Gjögri.


Keppendaflóran í Djúpavík var fjölskrúðug. Þarna voru stórmeistarar og stórbændur, börn og byrjendur, og fantasterkir áhugamenn úr öllum landshornum. Óhætt er að segja að síldarverksmiðjan skapi ævintýralega umgjörð um skákþing og afar góð stemning ríkti í gömlu mjölgeymslunni.

Bryddað er upp á ýmsum nýmælum á skákfundum á Ströndum. Þannig var Árný Björnsdóttir frá Melum valin best klæddi keppandinn, en áður hafði hún sungið sig inn í hjörtu skákmanna og gesta, ásamt Ellen systur sinni. Flutningur þeirra á lagi Jóns Nordals, Smávinir fagrir, var undursamlegur.

Síðast en ekki síst var háttvísasti keppandinn verðlaunaður með dýrindis lambalæri frá Melum, en þar er sauðfjárrækt í senn vísindi og list. Allir hegðuðu sér vel í Djúpavík og hefðu verðskuldað lambalærið góða, en það kom auðvitað í hlut mesta heiðursmanns sem íslensk skáksaga kann frá að greina - Friðriks Ólafssonar.

 

Lokahnykkur Skákhátíðar í Árneshreppi 2010 var hraðskákmót í Kaffi Norðurfirði, en það er tvímælalaust meðal bestu kaffihúsa landsins, auk þess að vera frábær skákstaður. Norðurfjarðarmeistari varð Róbert Lagerman, sem hlaut 5 vinninga í 6 skákum. Í 2.-6. sæti urðu Jóhann Hjartarson, Hlíðar Þór Hreinsson, Guðmundur Gíslason, Hrafn Jökulsson og Gunnar Björnsson.

Gunnar, sem er forseti Skáksambands Íslands, skrifar skemmtilega frásögn sem ríkulega myndskreytt á skákfréttavefinn. Smellið hér til að lesa ferðasögu forsetans!

Það er óhætt að bóka strax þriðju helgina í júní 2011 fyrir næstu skákveislu á Ströndum!

Athugasemdir

Atburðir

« 2024 »
« Mars »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Úr myndasafni

  • Spýtan og súlan eftir.
  • Lítið eftir.
  • Drangavík 18-04-2008.
  • Kaupfélagshúsið-Íbúðir- Reykjaneshyrna í baksýn. Mynd 20-02-2017.
  • Gunnsteinn Gíslason.
  • Finnbogastaðir 1938-2008.Húsið brann til kaldra kola 16 júní 2008.
Vefumsjón