Jón G. Guðjónsson | þriðjudagurinn 15. apríl 2014
Prenta
Þrýsta á aukinn mokstur og vegabætur.
Sveitarstjórnin í Árneshreppi á Ströndum hefur óskað eftir því að Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra svari því hver stefna ríkisstjórnarinnar sé hvað varðar samgöngur við byggðina. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í gær. Íbúar telja sig afskipta. Benda í því sambandi á að samkvæmt snjómokstursreglum er leiðin úr Bjarnarfirði og norðurúr aðeins rudd einu sinni á viku frá hausti fram til 5. janúar en ekkert eftir það fram til 20. mars. Raunar hafi átt að leggja snjómokstur á haustin af árið 2009, en þá hafi samgönguráðherra gert undanþágu. Íbúar í Árneshreppi þrýsta einnig á um vegabætur.