Fleiri fréttir

Jón G. Guðjónsson | miðvikudagurinn 21. janúar 2009 Prenta

Tillaga samgöngunefndar Fjórðungssambands Vestfirðinga.

Frá vegaframkvæmdum í sumar.
Frá vegaframkvæmdum í sumar.
Tillaga samgöngunefndar til stjórnar Fjórðungssambands Vestfirðinga  um ályktun um vegaframkvæmdir á Vestfjörðum, samþykkt á fundi 13. janúar 2009.

 

Samgöngunefnd Fjórðungssambands Vestfirðinga vekur athygli á stöðu framkvæmda í vegamálum á Vestfjörðum.

 

Vestfirðingar hafa um áratugaskeið beðið eftir að lokið væri uppbyggingu
nútíma vegasamgangna innan fjórðungsins og tengingu við aðra landshluta.  Í gildandi vegaáætlun 2007-2010 og í mótvægisaðgerðum ríkisstjórnar vegna þorskaflasamdráttar, mátti loks sjá fyrir endann á helstu verkefnum. Vegna stöðu efnahagsmála þurfa stjórnvöld að skera niður í öllum málaflokkum og ljóst að nýframkvæmdir í vegagerð munu dragast saman.  Því verður að leggja höfuðáherslu á það við ákvarðanir um vegaframkvæmdir næstu tvö árin að byggja upp þá hluta vegakerfisins sem setið hafa á hakanum um mörg undanfarin ár og standa langt að baki vegum í öðrum landshlutum. 

 

Vestfjarðavegur 60 um Barðastrandarsýslur, frá Flókalundi að Bjarkalundi, er eina vegtenging íbúa í Barðastrandarsýslu við aðalþjóðveg landsins.  Þrátt fyrir niðurskurð vegafjár er það skýlaus krafa Vestfirðinga að strax á þessu ári hefjist framkvæmdir við endurgerð Vestfjarðavegar og að staðið verði við áður samþykktar áætlanir án frekari tafa. Um leið vill Samgöngunefnd Fjórðungssambands Vestfirðinga beina því til yfirvalda samgöngumála, að fjármunir sem eru á Samgönguáætlun 2007 - 2010 og í aukafjárveitingum vegna mótvægisaðgerða  til Vestfjarðavegar,   falli ekki niður eða verði fluttir í önnur verkefni.  En fjármagn hefur  legið óráðstafað, þar sem framkvæmd þeirra hefur margoft verið frestað vegna  dómsmáls og tafa við hönnunar- og útboðsvinnu.

 

Jafnframt leggur Samgöngunefnd áherslu á að  hönnun og undirbúningur að jarðgöngum milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar, verði fram haldið af fullum þunga.

Ennfremur vill samgöngunefnd  FV benda á samgönguleysi íbúa  Árneshrepps við aðra hluta Strandasýslu og þar með þjóvegakerfi landsins.  Hér leggur nefndin mikla áherslu á að uppbygging vegar sem tengir Árneshrepp við næstu sveitarfélög  verði lokið sem fyrst.

Greinargerð:

 

Eftir samþykkt fjárlaga fyrir árið 2009 og ákvörðun um endurskoðun vegaáætlunar ársins 2009, er ljóst að fresta verður hluta þeirra framkvæmda sem áður voru áætlaðar. 

Vestfirðingar hafa lengi beðið þess að heilsársvegur yrði lagður um fjórðunginn, sem tengdi saman byggðir og gæfi íbúum héraðsins kleift að tengjast öðrum landshlutum.

 

Margoft hafa áætlanir um úrbætur í samgöngumálum Vestfjarða lent í niðurskurði og verið frestað af ýmsum ástæðum. Síðast fyrir tveim árum var framkvæmdum á Vestfjörðum frestað vegna þenslu í þjóðfélaginu, jafnvel þó svo að þeirrar þenslu hafi hvergi orðið vart í atvinnuvegum Vestfirðinga.  Nú er boðað að áður áætlaðar framkvæmdir verði skornar niður vegna samdráttar í samfélaginu. Mjög er farið að reyna á biðlund Vestfirðinga eftir nútímalegum samgöngum á landi og því brýnt að samgönguyfirvöld hafi þessar staðreyndir í huga þegar vegaframkvæmdir verða ákveðnar á þessu og næsta ári.

 

Vegtenging við aðra landshluta :

Samgöngunefnd Fjórðungssambands Vestfjarða leggur áherslu á að auk þeirra verkefna sem þegar er byrjað á og treysta verður að allt kapp verði lagt á að ljúka, verði forgangsröðun verkefna með þeim hætti að fremsta áhersla verði lögð á vegagerð á Vestfjarðavegi 60, frá Þorskafirði til Vatnsfjarðar.  Öll leiðin verði tekin inn í áætlun næstu tveggja til þriggja ára og þegar á þessu ári verði hafist handa við þá áfanga sem tilbúnir eru til útboðs. Áfangar á þessari leið eru:

 

  • Þverun Gufufjarðar og Djúpafjarðar frá Skálanesi í Þorskafjörð
  • Endurnýjun vegar úr Vatnsfirði í Kjálkafjörð
  • Endurnýjun vegar úr Kjálkafirði í Skálmarfjörð
  • Þverun Þorskafjarðar

 

Á Samgönguáætlun 2007 - 2010 er gert ráð fyrir  kr. 1.560 milljónum  ásamt framlögum vegna söluandvirðis Símans kr. 700 milljónum í Vestfjarðaveg 60.   Þá var á árinu 2008 úthlutað aukafjárveitingu eða 430 mkr, vegna nýframkvæmda á árinu 2008 og 300 mkr á árinu 2009, var hér um að ræða hluta af mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar. Fjármagn á árinu 2008 var annarsvegar ætlað í framkvæmdir í Þorskafirði og hins vegar endurbyggingar vegar frá Vatnsfirði í Kjálkafjörð. En vegna málavafsturs og því að áfangar hafa ekki verið tilbúnir til útboðs hefur orðið töf á framkvæmdum.

 

Leiðir innan fjórðungsins :

Samgöngunefnd leggur áherslu á að vinna við hönnun og undirbúning jarðganga milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar haldi áfram, þannig að útboð þeirrar framkvæmdar geti farið fram strax og færi gefst eða í síðasta lagi þegar sést fyrir endann á núverandi framkvæmdum við jarðgöng til Bolungarvíkur. 

 

Ennfremur vill Samgöngunefnd minna á að við núverandi aðstæður er hagkvæmt að bjóða út minni framkvæmdir, sem eru á verkefnaskrá Vegagerðarinnar í Strandasýslu og víðar á Vestfjörðum og nýta mannafl og tæki sem tiltæk eru innanlands.

Athugasemdir

Atburðir

« 2024 »
« Apríl »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Úr myndasafni

  • Fullfrágengið í kringum glugga,SA hlið.18-12-2008.
  • Skip á Norðurfirði.
  • Mikið dregið í einu,þarf að skipta þessu í þrjár ferðir.
Vefumsjón