Viðar Guðmundsson býður sig fram fyrir VG.
Viðar Guðmundsson tónlistarmaður og bóndi í Miðhúsum í Kollafirði á Ströndum gefur kost á sér í 3.-6. sæti í forvali Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi fyrir alþingiskosningarnar nú í vor. Í fréttatilkynningu kemur fram að Viðar leggur áherslu á jöfnuð í samfélaginu, byggðamál, menntamál og að standa vörð um frumgreinarnar í atvinnulífinu. "Heimilin í landinu, landbúnaðurinn, sjávarútvegurinn og fleiri grunnstoðir í samfélaginu standa mjög höllum fæti um þessar mundir. Nú þarf að standa vörð um hin raunverulegu verðmæti þjóðarinnar. Við þurfum að berjast gegn atvinnuleysi, minnka stórlega bilið á milli þeirra sem minnst hafa og þeirra sem mest hafa. Tími óhófs í launakjörum verður að taka enda.
Bæta þarf samkeppnisstöðu fyrirtækja og einstaklinga á landsbyggðinni með því að tryggja lágmarksþjónustu, s.s. mannsæmandi vegi og háhraðatengingu Internets. Vegakerfið er lélegt og netsambandið enn verra og það er til skammar að ekki skuli hafa verið meira gert í þessum málaflokkum á síðustu árum. Það er yfirvofandi mikill niðurskurður hjá ríkinu á næstu árum sem og sveitarfélögum. Ég hef miklar áhyggjur af því ef það á að fara að sneiða mikið af skólakerfinu. Við verðum að reyna að halda úti öflugu skólakerfi þó að þrengi að. Það er fjárfesting til framtíðar sem mun ávaxta sig vel.
Hinsvegar tel ég að víða í ríkisrekstrinum megi spara umtalsvert án þess að það valdi mikilli þjónustuskerðingu. Sem dæmi nefni ég sendiráð okkar sem við eigum og rekum víða um heim. Mín skoðun er sú að við eigum að vera með sameiginleg sendiráð með annarri Norðurlandaþjóð, t.d. Noregi. Þjónustan ætti ekki að þurfa að skerðast, en sparnaðurinn gæti verið umtalsverður.
Byrjum ekki á námsmönnum, sjúklingum og eldri borgurum þegar á að fara að spara.''
Viðar Guðmundsson er 27 ára gamall og starfar sem tónlistarkennari og organisti á Hólmavík, auk þess sem hann er bóndi í Miðhúsum. Viðar er einnig stjórnandi Karlakórsins Söngbræðra í Borgarfirði. Kona Viðars er Barbara Ósk Guðbjartsdóttir bóndi og leiðbeinandi og eiga þau 3 börn.