Jón G. Guðjónsson | þriðjudagurinn 24. janúar 2012
Prenta
Vikan hjá Lögreglunni á Vestfjörðum 16. til 23.jan.2012.
Þrjú umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglu í liðinni viku. Á mánudagskvöldið kom tilkynning til lögreglu um að dráttarbíll frá Skeljungi með eftirvagni fullum að bensíni,hafi farið á útaf í Hestfirði í Ísafjarðardjúpi. Strax voru gerðar viðeigandi ráðstafanir þar sem mikil eldhætta var talin vera á staðnum og slökkvilið Ísafjarðarbæjar fór á vettvang. Veginum um Ísafjarðdjúp var strax lokað. Það var síðan undir morgun að slökkviliðinu tókst að tryggja vettvang,aftengja rafgeyma dráttarbílsins til minka hugsanlega eldhættu,og í framhaldi af því hafist handa um að dæla bensíninu úr vagninum. Gekk það nokkuð greiðlega og um kl.10:00 á þriðjudagsmorgun var því að mestu lokið og í framhaldi var vegurinn opnaður aftur. Talsvert mikið magn af bensíni fór niður og var dælubíll notaður til að ná sem mestu upp,en talsvert magn var í vatnsrásinni þar sem bíllinn valt. Nokkuð greiðlega gekk að ná dráttarbílnum og vagninum upp og í framhaldi voru tækin flutt til Ísafjarðar.
Föstudaginn 20. jan., var ekið á hross á veginum við Skeljavík á Ströndum, hrossið mun ekki hafa slasast. Þann sama dag varð bílvelta á Djúpvegi,Steingrímsfjarðarheiði,þar hafnaði bíll út fyrir veg og valt. Ekki slys á fólki,bifreiðin fjarlægð af vettvangi með krana.
Færð á vegum í umdæminu var frekar slæm,snjór og mikil hálka og áttu ökumenn víða í vandræðum á ferðum sínum. Þá hvetur lögregla ökumenn/vegfarendur til að kynna sér ástand vega og færð áður en lagt er í langferð og minnir á síma vegagerðarinnar 1777/1779,þar sem hægt er að fá upplýsingar um færð og veður.
Skemmtanahald í umdæminu gekk nokkuð vel og án teljandi afskipta lögreglu, en þorrablót voru víða haldin á laugardagskvöldinu.