Vikan hjá lögreglunni á Vestfjörðum 30. sept til 7. október 2013.
Aðfaranótt sunnudagsins 6. október lagði lögreglan á Vestfjörðum hald á um 70 grömm af kannabisefnum (marihúana). Efnin fundust í bifreið sem var á leið frá Reykjavík til Ísafjarðar. Þrjú ungmenni voru í bifreiðinni,tvær stúlkur og karlmaður. Önnur stúlknanna var ökumaður og er hún grunuð um að hafa ekið bifreiðinni undir áhrifum fíkniefna. Fólkið var allt handtekið og fært á lögreglustöðina á Ísafirði. Það var yfirheyrt daginn eftir og sleppt að yfirheyrslum loknum. Grunur leikur á að efni þessi hafi átt að fara í umferð á norðanverðum Vestfjörðum en með aðgerðum lögreglunnar tókst að koma í veg fyrir það. Fólk þetta hefur áður komið við sögu vegna fíkniefnamála. Við þetta tækifæri vill lögreglan á Vestfjörðum hvetja alla sem einhverja vitneskju hafa um fíkniefnameðhöndlun að gera viðvart,annað hvort með því að hafa beint samband við lögreglu í síma 450 3730 eða í upplýsingasíma lögreglu og tolls,sem er 800 5005. Fullri nafnleynd er heitið.
Einn ökumaður var kærður fyrir að leggja bifreið sinni að hluta upp á gangstétt. Það var á miðjum degi á Ísafirði. Ökumenn eru hvattir til að haga lagningu bifreiða sinna í samræmi við lög og reglur. Ólöglegar lagningar geta skapað hættu og óþægindum fyrir gangandi vegfarendur,að ekki sé talað um ferðir með barnavagna,hjólastóla eða önnur slík farartæki.
Tilkynnt var um eitt umferðaróhapp í umdæminu í liðinni viku. Það var þann 30. september. En erlendir ferðamenn misstu þar stjórn á bifreið sinni á Veiðileysuhálsi á Ströndum með þeim afleiðingum að hún valt. Engin slys urðu á fólki en bifreiðin töluvert skemmd. Auk þessa var tilkynnt um að ekið hafi verið á þrjár kindur í umdæminu,eina á Ströndum og tvær í Álftafirði.
Tveir ökumenn voru kærðir fyrir að tala í farsíma án handfrjálsbúnaðar. Þeir voru báðir í akstri á Ísafirði. Við afskiptin kom í ljós að annar þessara ökumanna hafði aldrei öðlast ökuréttindi. Þriðji ökumaðurinn var sektaður fyrir að aka án þess að vera með öryggisbelti spennt. Lögreglan hvetur ökumenn til að gæta að þessum öryggisþáttum sem og öðrum.