Veðrið í Júlí 2013.
Yfirlit yfir veðrið frá veðurstöðinni í Litlu-Ávík.
Mánuðurinn var umhleypingasamur í byrjun og fram til 7. Síðan oftast hafáttir eða breytilegar með fremur hægu veðri en nokkuð vætusömu og oft þokulofti. Suðlægar vindáttir voru frá 19. til 22. með litilsáttar úrkomu. Þegar suðlægar vindáttir voru hlýnaði vel í veðri,enn oft voru skúrir eða rigning í þessum suðlægu vindáttum. (sjá yfirlit dagar eða vikur). Síðan voru hafáttir aftur með þokulofti og súld með köflum út mánuðinn. Mánuðurinn var fremur kaldur í heild,miðað við árstíma,þótt nokkrir mjög hlýir dagar hafi verið. Kaldara var fyrri hluta mánaðar og einnig í seinnihluta mánaðar. Alveg úrkomu lausir dagar voru aðeins sex í mánuðinum.
Heyskapur hefur ekki gengið vel vegna vætutíðar í mánuðinum,en sprettutíð var góð í mánuðinum. Heyfengur og gæði talin góð. Enn í lok mánaðar voru margir bændur búnir að ljúka fyrri slætti og sumir alveg búnir,þeir sem slá ekki seinni slátt. Á einum bæ eru talsverðar kalskemmdir.
Yfirlit dagar eða vikur:
1-2:Norðan og NV gola,kaldi eða stinningskaldi,rigning eða súld,hiti 5 til 7 stig.
3-5:Suðaustan eða austlæg vindátt,kul,gola,kaldi eða stinningskaldi,þurrt þann 3.,annars súld eða rigning,hiti 5 til 11 stig.
6:Norðan og NV kul,stinningsgola,kaldi,rigning,hiti 5 til 10 stig.
7:Suðvestan stinningskaldi eða allhvasst,gola um kvöldið og rigning,hiti 5 til 14 stig.
8:Norðvestan eða N kul eða gola,rigning,hiti 7 til 9 stig.
9-10:Suðvestan gola,stinningsgola eða kaldi,þurrt þ.9.,lítilsáttar skúrir þ.10.,hiti 5 til 19 stig.
11-12:Norðaustan eða breytilegar vindáttir kul eða gola,súld,rigning,skúrir,hiti 7 til 17 stig.
13-14:Breytilegar vindáttir gola,skúrir,rigning,hiti 5 til 11 stig.
15-18:Norðan eða Norðvestan,gola eða stinningsgola,súld eða rigning,hiti 6 til 13 stig.
19-22:Suðvestan eða suðlægar vindáttir kul,gola,stinningsgola eða kaldi,súld,skúrir,rigning,þurrt dagana 20 og 22.,hiti 9 til 18 stig.
23-31:Norðan eða NV kul,stinningsgola,kaldi þ.31.,súld,þurrt í veðri 27.og 28.,hiti 4 til 14 stig.
Mæligögn:
Úrkoman mældist 65,3 mm. (í júlí 2012: 75,6 mm.)
Þurrir dagar voru 6.
Mestur hiti mældist 19,0 stig þann 10.
Minnstur hiti mældist 4 stig þann 26.
Meðalhiti við jörð var + 6,13 stig (í júlí 2012: +6,39 stig.)
Meðalhiti var:+8,9 stig.
Sjóveður:Að mestu sæmilegt eða gott,þann 2-3-5-6-7 og 31,var dálítill eða talsverður sjór.
Tekið saman af Jóni G Guðjónssyni veðurathugunarmanni í Litlu-Ávík.