Veðrið í Mars 2016.
Yfirlit yfir veðrið frá veðurstöðinni í Litlu-Ávík.
Mánuðurinn byrjaði með hægviðri yfirleitt og var frekar rólegt veður fram til níunda. Þann tíunda gekk í suðaustan með hlýnandi veðri og síðan suðvestan og kólnandi veðri á víxl og voru umhleypingar alveg fram til og með 14. Enn hluta úr dögunum 12, 13 og 14, eða allan sólarhringinn var rok,ofsaveður eða fárviðri. Suðlægar vindáttir voru svo ríkjandi áfram með hlýju veðri fram til 20. Eftir það fór heldur kólnandi, enn þann 25. gekk í norðaustlægar eða norðlægar og síðan austlægar vindáttir, og frysti og var fremur svalt út mánuðinn, en heldur fór að hlína um kvöldið þann 31.
Miklar leysingar voru eftir að hlýnaði í veðri þann 10 en mest í ofsaveðrinu þann 13.og 14. og sérstaklega þann dag og síðan voru leysingar fram til 25. og jörð varð fljótt flekkótt.
Í suðsuðvestanáttinni þann 12 var alversta veðrið frá því um 19:00 og fram til 22:00, og náði jafnavindur 31m/s (ellefu vindstig gömul) og kviður í 46 m/s. Og frá því um kvöldmat skóf mikinn skara upp, á rúður og hús. Mesta mildi að ekkert hafi skeð.
Og í sunnan og SSV áttinni þann 13. var veðurhæð þessi klukkan 21:00: SSV 38 m/s eða 137 km (klst í jafnavind og í kviðum 55 m/s eða 196 km/klst. Svipað veður var fram á miðnættið þegar veðurathugunarmaður fór að reyna að leggja sig. Lítilsháttar foktjón varð í Árneshreppi, hurðir á hlöðu splundruðust og eitthvað annað smotterí fauk. Talsvert tjón varð á mörgum húsum vindmegin, þar sem má segja að málning hafi flagnað af eða hreinlega eins og skafin af heilu veggjunum, það er varla orð yfir það. Almennarómur í Árneshreppi segir það mildi að ekkert mjög alvarlegt hafi skeð í hreppnum í þessu fárviðri.
Mæligögn:
Úrkoman mældist 59,7 mm. (í mars 2015: 88,9 mm.)
Úrkomu sem varð vart en mældist ekki var í 1 dag.
Þurrir dagar voru 9.
Mestur hiti mældist þann 13: +12,5 stig.
Mest frost mældist þann 31: -5,6 stig.
Meðalhiti mánaðarins var +1,7 stig.
Meðalhiti við jörð var -1,38 stig. (í mars 2015: -2,18 stig.)
Alhvít jörð var í 19 daga.
Flekkótt jörð var í 12 daga.
Auð jörð var því í 0 dag.
Mesta snjódýpt mældist þann 1: 51 cm.
Sjóveður: Sjóveður var allsæmilegt og oft gott, enn slæmt dagana, 1, 2, og 24 til 28.
Yfirlit dagar eða vikur:
1: Norðan og NA, kul síðan stinningskaldi, slydda, hiti 0 til 3 stig.
2-9: Mest suðlægar vindáttir eða breytilegar, kaldi, stinningsgola, gola eða kul, lítilsáttar úrkoma, snjókoma, slydda, rigning eða él, þurrt í veðri 3,4,7 og 9, hiti frá +4 niður í -5 stig.
10-12: Sunnan eða SV, stinningsgola, kaldi, allhvass enn ofsaveður um kvöldið og fram á nótt þ. 12. rigning, slydda, él, snjókoma, hiti, +9 niður í -1 stig.
13-14: Sunnan eða SV, gola, kaldi, stormur, rok, ofsaveður eða fárviðri, snjókoma, slydda, él, skúrir, miklar leysingar 14. hiti frá +0 til 13 stig.
15-20: Suðlægar vindáttir, S, SV, kul, gola, stinningsgola, kaldi,rigning, skúrir, þurrt í veðri, 17, 19 og 20, hiti frá +2 til +9 stig.
21-24: Austlægar eða breytilegar vindáttir, andvari, kul, stinningsgola, rigning, slydda,súld, þoka, hiti frá +1 til +5 stig.
25-29: Norðaustan, allhvass, stinningskaldi, kaldi, stinningsgola, gola, slydda, slydduél, snjókoma, él, hiti frá +3 niður í -4 stig.
30-31: Austlægar eða suðlægar vindáttir, andvari, kul, gola, úrkomulaust, hiti frá -6 til +2 stig.
Tekið saman af Jóni G Guðjónssyni veðurathugunarmanni í Litlu-Ávík.