Alþjóðleg refaráðstefna á Íslandi.
Alþjóðleg ráðstefna um melrakkarannsóknir The 4th Arctic Fox Conference
Melrakkasetur Íslands hefur umsjón með fjórðu alþjóðlegu ráðstefnunni sem haldin er um melrakkann (e. arctic fox, lat. Vulpes lagopus). Ráðstefna þessi er haldin á fjögurra ára fresti og hefur aldrei áður farið fram á Íslandi. Samstarfsaðilar eru Náttúrustofa Vestfjarða, Háskóli Íslands, Vesturferðir, Borea Adventures og Náttúrufræðistofnun Íslands.
Ráðstefnan verður haldin á Hótel Núpi í Dýrafirði dagana 11. – 13. október 2013.
Dagskrá ráðstefnunnar og upplýsingar um skráningu eru á heimasíðunni: http://www.melrakki.is/arctic_fox_conference/
Dagskráin hefst föstudaginn 11. Október kl. 10.00 með hefðbundnum fyrirlestrum og veggspjaldasýningum og stendur til kl. 17.00. Svipað fyrirkomulag er á laugardeginum þar sem hafist er handa kl. 10.00 og verða fjölbreytt erindi fram til kl. 17.00.
Sunnudagurinn 13. október er helgaður Páli heitnum Hersteinssyni sem lést á þessum degi árið 2011. Fjallað er um rannsóknir hans og samstarf við ýmsa aðila á innlendum sem erlendum vettvangi. Eftir hádegi verða sýndar heimildamyndir og veggspjöld ásamt myndasýningu um Pál og samstarfsmenn hans. Ráðstefnunni lýkur svo með samantekt á sunnudeginum kl. 17.00.
Á ráðstefnunni verða kynntar rannsóknir á tegundinni af hálfu vísindamanna frá Alaska, Kanada, Bandaríkjunum, Noregi, Svalbarða, Rússlandi, Svíþjóð, Íslandi, Grænlandi, Danmörku og Þýskalandi. Rannsóknirnar eru á ýmsum sviðum líffræðinnar og einnig þverfaglegar. Fjallað er um stöðu tegundarinnar á einstökum svæðum og á heimsvísu, m.a. á sviði líffræði, lífeðlisfræði, atferlisfræði, samskipti við aðrar tegundir, veiðar, verndun og áhrif loftslagsbreytinga. Þar sem heimkynni melrakkans, norður heimskautið, hefur sýnt sterka svörun við hlýnun jarðar eru rannsóknir á lífríki norðurslóðanna afar brýnar. Ísland stendur vel að vígi með einn sterkasta stofn tegundarinnar á norðurlöndunum, stofn sem hefur verið nokkuð lengi einangraður frá öðrum búsvæðum. Rannsóknir okkar á melrakkanum hafa sjaldan verið brýnni og mikilvægari til þekkingar og samanburðar. Meðal þátttakenda eru virtir fræðimenn sem hafa mikla þekkingu og sterka stöðu innan vísindastofnana í sínum heimalöndum. Má þar nefna Dr. Anders Angerbjörn frá Stokkhólmsháskóla, Dr. Nina Eide frá Norsk Naturforvaltning, Dr. Eva Fuglei frá Norwegian Polar Institute, Dr. Rolf A. Ims frá Háskólanum í Tromsø, Dr. Dominique Berteaux frá Qébec í Kanada, Dr. Paula White frá Carnivore Conservation, USA, Dr. Eli Geffen frá Tel Aviv í Ísrael ásamt fleirum.
Ráðstefnan er opin öllum sem hafa áhuga á rannsóknum á norrænum vistkerfum og dýrastofnum. Þetta er einstakt tækifæri til að sjá og heyra af nýjustu rannsóknum í þessum málaflokki. Aðstandendur ráðstefnunnar hvetja alla áhugasama til að taka þátt, hvort sem er að hluta til eða í heild sinni. Hægt er að semja um eingöngu dags viðveru og greiða þátttökugjald, kaffi og hádegisverð fyrir hvern dag ef ekki er óskað eftir gistingu. Hafið samband við undirbúningsaðila samkvæmt fyrirmælum á heimasíðu ráðstefnunnar ef bókunarmöguleikar á síðunni eiga ekki við óskir viðkomandi.
Dagskrá ráðstefnunnar og upplýsingar um skráningu eru á heimasíðunni: http://www.melrakki.is/arctic_fox_conference/