Atvinnurekendur á Ströndum og Reykhólum stofna hagsmunasamtök.
Það var fjölmenni sem kom saman þriðjudaginn 19.11. í Hnyðju á Hólmavík til að stofna samtök atvinnurekenda á Ströndum og Reykhólum. Meginmarkmið félagsins er að stuðla að vexti og viðgangi samfélaganna á svæðinu með það fyrir augum að gera byggðirnar enn ákjósanlegri til atvinnurekstrar og búsetu, ekki síst fyrir fjölskyldufólk.
Fundarmenn voru sammála um að það þurfi að verða viðsnúningur í sókn og uppbyggingu á svæðinu og að nýsköpun kæmi þar sterkt inn. Eitt mikilvægt skref í því væri samstaða atvinnurekenda til að stuðla að bættum skilyrðum til atvinnurekstrar á svæðinu.
Kynna þarf svæðið betur því það býr yfir góðum innviðum til atvinnurekstrar og er vel staðsett en það þarf að kynna betur kosti þess að reka fyrirtæki þar. Fyrstu verkefnin verða að þjappa atvinnurekendum saman, kynna hvaða þjónusta er til staðar og þau tækifæri sem felast í því að búa í sveitarfélögunum.
Kosið var í stjórn félagsins og verður aðalfundur haldinn í janúar. Tæplega þrjátíu manns skráðu sig í samtökin en þeir sem vilja gerast stofnfélagar geta skráð sig fram til 31. desember 2019 hjá Skúla Gautasyni starfsmanni Vestfjarðastofu á svæðinu.