Bændur láta telja fósturvísa.
Í gær og í fyrra dag var verið að ómskoða fé hjá bændum í Árneshreppi. Flestir bændur í Árneshreppi láta telja fósturvísa í ám sínum til að vita hvaða ær verði tvílembdar eða einlembdar og jafnvel þrílembdar eða hvað er mikið gelt,í vor í sauðburðinum. Við talninguna er notuð ómsjá. Guðbrandur Þorkelsson bóndi að Skörðum í Dalasýslu sá um ómskoðunina eða talninguna. Guðbrandur vinnur mikið við þetta í sinni heimasveit og víðar. Ljóst er að með slíkri talningu er hér á ferðinni tækni sem fyrir fjölmörg fjárbú sýnist vera ákaflega áhugaverð til að nýta. Augljósustu nýtingamöguleikar tengjast skipulagningu fóðrunar á síðari hluta meðgöngutíma ánna auk þess sem að slík vitneskja á víða að geta skapað mikla möguleika til að skipuleggja alla vinnu á sauðburði. Þetta er fimmta árið í röð sem bændur hér í Árneshreppi láta ómskoða til að telja fósturvísa.