Breytingar á vef Veðurstofu Íslands.
Á vef Veðurstofu Íslands og nú Vatnamælinga kemur fram að vefurinn mun breytast um helgina.
Í kjölfar sameiningar Veðurstofunnar og Vatnamælinga verða gerðar breytingar á vefnum vedur.is nú um helgina. Veigamestu breytingarnar verða á forsíðunni, en einnig verða fjölmargar breytingar á undirsíðum. Bæði verða breytingar á kvikum síðum og textasíðum.
Efri hluta forsíðunnar verður skipt upp í fjóra hluta: veðurspá, veðurathuganir, jarðskjálfta og vatnafar. Hver hluti tekur yfir allan efri helminginn þegar hann er valinn. Segja má, að um sé að ræða fjórar forsíður.
Meginorsakir þessarar róttæku breytingar á forsíðunni eru:
- Erfitt er að bæta vatnafars-upplýsingum inn á forsíðuna við núverandi uppsetningu.
- Af öryggisástæðum verður vinda-, hita- og úrkomu-spákortum gert hærra undir höfði á forsíðunni á kostnað núverandi staðaspákorts. Á vindaspákortum er hægt að sjá hvar og hvenær stormar verða verstir. Það er oft nánast ógerlegt á staðaspákortum.
- Þessi uppsetning forsíðunnar opnar þann möguleika að bæta fleiri meginþáttum inn á forsíðuna seinna meir.
Hægt er að skoða breytingarnar á www2.vedur.is
Athugið að á þessum prófunarvef er ekki að finna nýjar fréttir og greinar. Verið er að leggja lokahönd á breytingarnar, því kann prófunarvefurinn að verða óvirkur annað veifið.
Sjá nánar á www.vedur.is