Frá aðalfundi Félags Árneshreppsbúa.
Aðalfundur Félags Árneshreppsbúa fór fram í Akógessalnum við Lágmúla laugardaginn 8. nóvember. Nærri 50 gestir mættu og áttu saman ágæta stund. Kristmundur Kristmundsson var einróma endurkjörinn formaður félagsins með lófaklappi. Sömu sögu var að segja af öðrum stjórnarmönnum félagsins, Böðvari Guðmundssyni, Guðrúnu Gunnsteinsdóttur, Ívari Benediktssyni , Sigríði Höllu Lýðsdóttur og Unni Pálínu Guðmundsdóttur. Varmennirnir Guðbrandur Torfason og Jensína Hjaltadóttir voru ennfremur valin til áframhaldandi starfa eins og skoðunnarmenn reikninga, Arnar H. Ágústsson og Gíslína Vilborg Gunnsteinsdóttir.
Funarstjóri var að vanda Guðmundur Þ. Jónsson.
Félagið var rekið með rúmlega einnar milljónar króna tapi á síðasta starfsári. Meginhluti tapsins er vegna afskrifta á myndasafni félagsins upp á tæplega 997.000 krónur en afskriftin var samþykkt á aðafundi fyrir ári síðan. Að tillögu Hilmars F. Thorarensen var samþykkt nú að bókfæra myndasafni á nýjan leik í reikningum félagsins fyrir 990 kr.
Annars var rekstur félagsins með hefðbundnu sniði á síðasta ári. Félagið hélt árshátíð að vanda í mars sem tókst afar vel og var örlítill afgangur af samkomunni að þessu sinni. Þá var haldinn jóladansleikur sem tókst afar vel og sprengdi utan af sér húsnæðið. Næsti jóladansleikur verður haldinn í sal Vídalínskirkju sunnudaginn 29. nóvember. Þar ætti að verða nægt rými fyrir alla gesti.
Þá gaf félagið að vanda út tvö fréttabréf sem prentuð eru í 1.000 eintökum hvort en félagsmenn eru rúmlega 900.
Kristmundur þakkaði öllum þeim sem stutt hafa við bakið á félagið á undanförnum árum með því að greiða valgreiðslu í heimabanka og eins þeim sem lagt hafa til vinninga í happdrætti félagsins á árshátíðinni.
Formaður óskaði ennfremur eftir að bókað væri að fundurinn óskaði Evu Sigurbjörnsdóttur velfarnaðar í embætti oddvita Árneshrepps en hún tók við embættinu eftir sveitarstjórnarkosningar í vor sem leið. Um leið þakkaði Kristmundur formaður, Oddnýju Þórðardóttur fyrrverandi oddvita, fyrir mikið og óeigingjarnt starf í þágu hreppsins á undangengnum átta árum.
Einnig voruö bókaðar sérstakar þakkir frá fundarmönnum til Jóns Guðbjörns Guðjónssonar, ritstjóra Litlahjalla, fyrir dugnað og þrautsegju við að flytja fréttir úr Árneshreppi á vef sínum á undangengnum árum.
Kristmundur formaður sagði að margt brynni á Árneshreppi um þessar mundir. Mikilvægt væri að bæta samgöngur við hreppinn en viðhald vegarins væri ófullnægjandi. Eins væri þörf á bættri hafnaraðstöðu í ljósi sívaxandi strandbátaútgerðar frá Norðurfirði yfir sumartímann. Einnig væri miður enn og aftur hafi verið slegið á frest um óákveðinn tíma að malbika flugbrautina á Gjögurflugvelli. Hins vegar væri ljóst að þeim fjölgaði með hverju árinu sem uppgötvuðu heillandi heim Árneshrepps því stöðug aukning væri í komu ferðamanna á hverju ári.
Í fundarlok var sýnd mynd sem Rúnar Kristinsson tók þegar forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, heimsótti Gjögur í kringum aldarmótin. Meðan myndin var til sýningar gæddu gestir sér á veitingum af veglegu kökuhlaðborði og drukku kaffi og gosdrykki.
Meðfylgjandi myndir tók Ívar Benediksson.