Fleiri fréttir

| mánudagurinn 22. september 2008 Prenta

Góðir gestir í Árneshreppi

Kristján Þór Júlíusson horfir til framtíðar gegnum fornan sjónauka í Kört.
Kristján Þór Júlíusson horfir til framtíðar gegnum fornan sjónauka í Kört.
1 af 4
Stjórn Byggðastofnunar, ásamt nokkrum lykilstarfsmönnum, var  í heimsókn í Árneshrepp á dögunum og var komið víða við á einni dagstund. Fyrst var staldrað við í hávaðaroki í Veiðileysurétt, dáðst að fé og spjallað við bændur. Einn bóndi er einmitt í stjórn Byggðastofnunar, Drífa Hjartardóttir, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Úr Veiðileysu var haldið til Norðurfjarðar, þar sem ljúffengar veitingar biðu í Kaffi Norðurfirði. Kaupfélagið var auðvitað heimsótt líka, og þar festi stjórnarformaðurinn Örlygur Hnefill Jónsson kaup á verndarengli, sem vaka mun yfir störfum hinnar mikilvægu stofnunar. Þá var ekið út á Krossnes og sundlaugin skoðuð, en ölduhæðin var slík að sundsprettur varð að bíða betri tíma.

Næst á dagskrá var heimsókn í Kört, þar sem Hrefna Þorvaldsdóttir veitti leiðsögn og upplýsingar, og er skemmst frá því að segja að safnið vakti mikla lukku og hrifningu. Gaman er að segja frá því að gestir í Kört hafa aldrei verið fleiri en þetta árið.

Að endingu var svo stoppað í Finnbogastaðaskóla, þar sem Elín Agla Briem skólastjóri sagði frá starfinu í minnsta skóla á Íslandi, auk þess sem skólastjórahjónin ræddu vítt og breitt um málefni Árneshrepps við áhugasama stjórnarmenn Byggðastofnunar. Fram kom sterkur vilji til að aðstoða við eflingu byggðar í Árneshreppi, enda lýstu stjórnarmenn mikilli hrifningu á náttúru og mannlífi í þessari afskekktustu sveit á Íslandi.

Stjórn Byggðastofnunar er svo skipuð:

Örlygur Hnefill Jónsson, formaður, Húsavík
Guðjón Guðmundsson, varaformaður, Akranesi
Anna Kristín Gunnarsdóttir, Sauðárkróki
Bjarni Jónsson, Hólum
Drífa Hjartardóttir, Hellu
Kristján Þór Júlíusson, Akureyri
Herdís Á. Sæmundardóttir, Sauðárkróki

Athugasemdir

Atburðir

« 2025 »
« Apríl »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Úr myndasafni

  • Suðri í miklum ís á austurleið.
  • Bakdyr SA hlið.18-12-2008.
  • Krossnes séð úr urðunum 15-03-2005.
Vefumsjón