Hamingjan sanna hefst í dag!
Mígandi hamingja á Hólmavík!
Laglausi kórinn, léttmessa, hamingjulaup, hnallþóru, furðuleikarnir og fiskur á Hamingjudögum á Hólmavík 1 - 4 júlí.
Strandamenn eru ekki venjulegt fólk og því er það engin venjuleg dagskrá sem boðið verður upp á á Hamingjudögum Strandamanna sem haldnir verða á Hólmavík í sjötta sinn dagana 1. - 4. Júlí næstkomandi. Strandamenn eru sem betur fer ekki við hestaheilsu og því setja hrossasjúkdómar ekki strik í reikninginn þegar þeir ætla að gera sér glaðan dag.
Boðið er upp á gríðarlega fjölbreytta dagskrá þar sem grín og glens er í fyrirrúmi en þó fyrst og fremst helber hamingja enda er það vísindalega sannað að Strandamenn eru hamingjusömustu íbúar jarðarkringlunnar. Á Ströndum brosir hver einasti maður hringinn, og jafnvel einn og hálfan, hvernig sem viðrar og sama hvaða hörmungar dynja á heimsbyggðinni.
Meðal þess sem hægt er að berja augum og taka þátt í á Hamingjudögum er kassabílasmiðja, Hamingjuhlaup, götuleikhús, brúðuleikhús, hnallþóruhlaðborð, söngvakeppni barnanna, hamingjudansleikur, léttmessa í Hólmavíkurkirkju, Furðufataball fjölskyldunnar og Furðuleikar Sauðfjársetursins þar sem meðal annars er keppt í kvennahlaupi, trjónufótbolta og fleiri stórfurðulegum íþróttagreinum.
Þá koma fram á hátíðinni tónlistarmennirnir Svavar Knútur og Raddbandafélag Reykjavíkur, Geirmundur Valtýsson, hljómsveitin Hraun og Jón á Berginu. Ennfremur töframaðurinn Jón Víðis og tveir af undarlegustu mönnum landsins, Gísli Einarsson, fréttamaður og Rögnvaldur Gáfaði láta gamminn geysa í uppistandi við setningu hátíðarinnar á Kópnesi.
Hvað sem öðru líður þá á það að vera líðum ljóst að hamingjan á lögheimili á Ströndum og það getur hver sem er sannreynt um þessa helgi.