Hekla í beinni útsendingu á RÚV.
Fréttatilkynning frá Ríkislögreglustjóra-Almannavarnadeild.
Í dag var tekin í notkun vefmyndavél, sem sýnir beint frá eldfjallinu Heklu. Vefmyndavélin er á Búrfelli, sem er 12 km norð-vestan við Heklu. Búrfell er 700 m hátt fjall rétt ofan við Búrfellsvirkjun í Rangárvallasýslu.
Það er Öryggismálanefnd RÚV, sem stendur fyrir uppsetningu vefmyndavélarinnar í samstarfi við almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, Fjaska, Gagnaveitu Reykjavíkur og Mílu. Unnt verður að fylgjast með útsendingum frá vefmyndavélinni á heimasíðum samstarfsaðilanna, hjá Ríkisútvarpinu www.ruv.is/hekla og á heimasíðu almannavarnadeildarinnar http://almannavarnir.is/
Verkefnið er í almannaþágu og hluti af vöktun Heklu. Gert er ráð fyrir að með myndavélinni megi sjá fyrir hugsalega leið hraunrennslis, gosmökks og annað sem getur skipt máli komi til eldgoss.
Í síðustu gosum hefur aukin skjálftavirkni verið helsti forboði Heklugosa. Vísindamenn vakta Heklu og sáust forboðar Heklugosanna árin 1991 og 2000 á mælitækjum um 30 - 80 mínútum fyrir gosbyrjun.