Hulda Björk verslunarstjóri.
Eins og áður hefur komið fram að mikið hefur skeð í Árneshreppi á meðan Litlihjalli var í ársleyfi 2016. Um miðjan ágúst síðastliðið sumar tók Hulda Björk Þórisdóttir við sem útibústjóri Kaupfélags Steingrímsfjarðar á Norðurfirði af Nönnu Vilborgu Harðardóttur. En Nanna var búin að vera útibústjóri Kaupfélagsins á Norðurfirði frá því 3. nóvember 2015. Nanna kom að vestan og var mikið saknað hér í hreppnum þegar hún hætti.
Nú vonum við Árneshreppsbúar að þessi útibústjóri endist og endist, og verði farsæl í starfi, því það tekur alltaf mikinn tíma að þjálfa nýtt starfsfólk upp.
Komið var saman á Kaffi Norðurfirði til að kveðja Nönnu Vilborgu Harðardóttur 18 ágúst 2016. Jón Guðbjörn póstur flutti svohljóðandi ræðu: Um leið og þú kveður sem útibústjóra Kaupfélagsins á Norðurfirði, vil ég fyrst og fremst þakka þér fyrir gott samstarf í póstinum og hefur verið góð samvinna hjá okkur með hann. Þú varst ótrúlega fljót að komast inn í kerfið bæði við póstinn og kaupfélagsreksturinn strax í upphafi, þegar þú byrjaðir í fyrra haust. Ég eins og sjálfsagt margir sveitungar mínir kveð þig með söknuði og óska þér velfarnaðar á nýjum vettfangi.