Lækkun á farsímagjöldum um áramót.
Póst - og fjarskiptastofnun (PFS) hefur birt ákvörðun sína varðandi heildsölugjaldskrá fyrir lúkningu símtala í einstökum farsímanetum. Þær breytingar sem kveðið er á um í ákvörðuninni leiða til þess að ein megin forsendan fyrir mismunandi verði á farsímaþjónustu verður ekki lengur til staðar, þ.e. þegar hringt er í annað farsímafélag en viðkomandi er í viðskiptum við. Samkeppnisvandamál sem PFS hefur greint á þessum markaði má fyrst og fremst rekja til þess að það farsímafyrirtæki sem ræður yfir því farsímaneti þar sem símtalinu lýkur,er með einokunarstöðu á því neti. Flest samkeppnisvandamálin hafa tengst lúkningarverði og að mati PFS hefur í sumum tilvikum átt sér stað yfirverðlagning á símtölum milli kerfa. Kostnaðinum hefur verið velt yfir á þá notendur sem koma inn í kerfið úr öðrum farsíma- eða talsímanetum. Með ákvörðuninni nú og frá 13. janúar sl. sér nú fyrir endann á þessu samkeppnisvandamáli.
Í dag eru lúkningarverð farsímafélaganna með þeim hætti að hámarksverð Símans og Vodafone er 4,5 kr./mín, Tals 5,5 kr./mín og Nova og IMC/Alterna 6,3 kr./mín. Samkvæmt ákvörðun PFS verða lúkningarverð allra fyrirtækjanna jöfnuð þann 1. janúar nk. í 4 kr./mín. Þann 1. júlí nk. lækkar verðið svo í 1,66 kr./mín. Með ákvörðuninni telur PFS að mikilvægum áfanga sé náð varðandi jöfnun og lækkun lúkningarverða á íslenskum farsímamarkaði, sem ættu að koma neytendum til góða.
Þess má geta að umrædd ákvörðun er sú fjórða sem PFS tekur á viðkomandi markaði frá árinu 2006. Þegar PFS hóf umrætt lækkunarferli á því ári námu hæstu lúkningarverð 15 kr./mín. Nánar á vef Póst - og fjarskiptastofnunar.