Mannauðsstjóri og rekstrarstjóri
Veðurstofa Íslands.
Á Starfatorgi eru nú auglýstar tvær stöður við hina nýju stofnun, mannauðsstjóri og rekstrarstjóri. Umsóknarfrestur rennur út 28. september næstkomandi.
Þann 11. júní 2008 gengu í gildi lög um nýja stofnun, Veðurstofu Íslands og tekur hún til starfa 1. janúar 2009. Stofnunin tekur við verkefnum Vatnamælinga og Veðurstofunnar og mun viðfangsefni hennar beinast að eðlisþáttum jarðarinnar, þ.e. lofti, vatni, snjó og jöklum, jörð og hafi.
Með nýrri stofnun um verkefni Veðurstofu og Vatnamælinga er ekki aðeins stefnt að samrekstri núverandi verkefna, heldur er einnig stefnt að því að móta hlutverk stofnunarinnar með nýjum og heildstæðum hætti.
Helsta hlutverk stofnunarinnar er að afla, varðveita, vinna úr og miðla upplýsingum um eðlisþætti jarðar. Jafnframt að stunda rannsóknir og veita þjónustu um verkefni á starfssviði sínu. Þessi þekking á eðlisþáttum jarðar á að stuðla að auknu öryggi almennings og eigna vegna náttúruvár og stuðla að sjálfbærri nýtingu náttúrunnar.
Hjá nýrri stofnun Veðurstofu Íslands mun starfa öflugur hópur fagmanna og vísindamanna og má gera ráð fyrir að starfsmannafjöldi verði um 120. Forstjóri Veðurstofu Íslands hefur þegar verið ráðinn og undirbúningur nýrrar stofnunar er hafinn.
Mannauðsstjóri fer með stjórn og umsjón mannauðsmála. Hann veitir stjórnendum stuðning og leggur til sérþekkingu og ferla til að styðja við kjarasamninga, vinnustaðasamninga og innleiðingu á starfsmannastefnu. Mannauðsstjóri heyrir beint undir forstjóra. Sjá nánar á Starfatorgi.
Rekstrarstjóri ber ábyrgð á rekstri og fjármálum stofnunarinnar í samráði við forstjóra. Hann sér um verk-og fjárhagsáætlanagerð og ber ábyrgð á öllum verkefnauppgjörum og fjármálaferlum. Hann heldur einnig utan um samninga, allar fjárhagslegar skuldbindingar og reikningsskil stofnunarinnar. Hann sér um endurskoðun á verðskrá í samráði við forstjóra og aðra stjórnendur og viðheldur og eflir tengsl við samstarfsaðila. Rekstrarstjóri heyrir beint undir forstjóra og tekur þátt í reglulegum fundum stjórnenda. Sjá nánar á Starfatorgi.
Frétt og mynd af www.vedur.is