Menningarráð Vestfjarða auglýsir eftir styrkumsóknum.
Menningarráð Vestfjarða hefur nú auglýst eftir styrkumsóknum vegna fyrri úthlutunar á árinu 2008 til menningarverkefna á Vestfjörðum. Um er að ræða styrki til afmarkaðra menningarverkefna og eru umsóknir bornar saman á samkeppnisgrundvelli, þannig að fara þurfa saman áhugaverð verkefni og góðar umsóknir til að líkur séu á að styrkur fáist.
Menningarráð Vestfjarða hefur skilgreint ákveðna áhersluþætti við hverja úthlutun til þessa og við fyrri úthlutun 2009 verður litið sérstaklega til menningarverkefna sem fela í sér eftirtaldar áherslur:
a. Nýsköpun á sviði lista og menningarstarfs.
b. Verkefni sem miða að fjölgun starfa.
c. Samstarf milli menningarstofnanna, byggðarlaga eða listgreina og uppsetning viðburða á fleiri en einum stað.
d. Verkefni sem stuðla að samvinnu atvinnumanna í listum og leikmanna.
e. Verkefni sem miða að því að listnemar eða ungir listamenn frá Vestfjörðum komi í auknum mæli að listsköpun og menningarstarfi í fjórðungnum.
f. Viðamikil samstarfsverkefni sem byggja á samstarfi þriggja eða fleiri aðila og leiða til samstarfs milli ólíkra svæða á Vestfjörðum.
Umsóknarfrestur er til föstudagsins 17. apríl og er rafrænt umsóknarblað, leiðbeiningar og úthlutunarreglur að finna hér á vef Menningarráðsins. Allar nánari upplýsingar gefur menningarfulltrúi Vestfjarða, Jón Jónsson, í síma 891-7372 og netfanginu menning@vestfirdir.is.