Fleiri fréttir

| þriðjudagurinn 2. júní 2009 Prenta

Minningarmót um Guðmund í Stóru-Ávík haldið í Djúpavík 19. og 20. júní

Ingólfur í Árnesi og Guðmundur í Stóru-Ávík að tafli sumarið 2005.
Ingólfur í Árnesi og Guðmundur í Stóru-Ávík að tafli sumarið 2005.
1 af 5
Skákhátíð verður haldin í Árneshreppi á Ströndum dagana helgina 19. til 21. júní. Í Djúpavík verður efnt til Minningarmóts Guðmundar Jónssonar í Stóru-Ávík og hraðskákmót haldið í Kaffi Norðurfirði.

Skákfélagið Hrókurinn stendur að hátíðinni í Árneshreppi, annað árið í röð. Í fyrra sigraði Helgi Ólafsson stórmeistari á vel skipuðu og skemmtilegu atskákmóti í Djúpavík.

Tíu umferðir verða tefldar á Minningarmóti Guðmundar Jónssonar, þar af fjórar föstudagskvöldið 19. júní og sex daginn eftir. Hraðskákmót verður svo haldið sunnudaginn 21. júní.

Gestum á skákmótinu gefst kostur á að kynnast stórbrotinni náttúru og fjölbreyttu mannlífi í Árneshreppi, sem er afskekktasta sveit á Íslandi. Akstur frá Reykjavík og Akureyri tekur um það bil 5 klukkustundir.

Hægt er að panta gistingu í Hótel Djúpavík (sími 4514037), hjá Margréti á Bergistanga (sími 4514003), hjá Eddu í Norðurfirði (sími 5544089) og hjá Guðbjörgu sem leigir út svefnpokapláss og tjaldstæði hjá Finnbogastaðaskóla (sími 4514012). Einnig er hægt að fá tjaldstæði í Djúpavík. Gestir eru hvattir til að bóka gistingu sem fyrst.

Skráning á mótið er hjá Róbert Harðarsyni í chesslion@hotmail.com og síma 6969658 og Hrafni Jökulssyni í hrafnjokuls@hotmail.com og síma 6633257.

Guðmundur Jónsson (1945-2009) í Stóru-Ávík var mikill og ástríðufullur skákáhugamaður og tók meðal annars þátt í hátíðinni á síðasta ári. Hann lést 25. apríl síðastliðinn og með hátíðinni í júní vilja vinir hans og félagar heiðra minningu góðs drengs.

Athugasemdir

Atburðir

« 2024 »
« Maí »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Úr myndasafni

  • Storð í Trékyllisvík-06-07-2004.
  • Jón Guðbjörn sendir veðurskeyti.
  • Borgarísjaki austan við Selsker 16-09-2001.
Vefumsjón