Netnotkun með farsímum og netlyklum minnst á Íslandi.
Á vef Póst og Fjarskiptastofnunar má sjá eftirfarandi um notkun á neti og fleiru gegnum farsíma:
Íslendingar sækja minna af gögnum á Netið í gegn um farsíma og netlykla en aðrar þjóðir á Norðurlöndum og áskrifendur að gagnaflutningi um breiðband (e. mobile broadband) eru einnig fæstir hér miðað við höfðatölu Á sama tíma er útbreiðsla DSL nettenginga (t.d. ADSL) mest hér á landi.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri skýrslu þar sem bornir eru saman fjarskiptamarkaðir á Norðurlöndum. Skýrslan var tekin saman af vinnuhópi um norræna tölfræði vegna fundar forstjóra fjarskiptaeftirlitsstofnananna á Norðurlöndunum.
Ein af skýringum þess að Íslendingar eru ekki komnir eins langt í netnotkun með farsímum og netlyklum og aðrar þjóðir á Norðurlöndum er að 3G nettengingar voru fyrst í boði hér á landi á seinni hluta ársins 2007 en hafa verið lengur í boði á hinum Norðurlöndunum.
Þegar skýrslan er skoðuð í heild má þó segja að samanburðurinn sýni að ekki er mikill munur á fjarskiptanotkun fólks í þessum löndum. Meðal annars sem fram kemur í skýrslunni er að:
Notendum fækkar í fastaneti á öllum Norðurlöndunum og mínútum í heimasíma fækkar einnig.
Fjöldi mínútna úr farsíma er síhækkandi hlutfall af öllum mínútum sem talað er í síma á Norðurlöndum.
Finnar eru með mestu notkun í farsíma.
Meðallengd símtals í farsíma er styst hér á landi en lengst í Finnlandi.
Danir senda flest SMS en Íslendingar fæst. Mikil aukning hefur átt sér stað í fjölda SMS sendinga í Svíþjóð.
Skýrsluna má skoða í heild hér.