Pósturinn komst til skila eftir fjórtán ár.
Flöskuskeyti sem Ágústa Ýr Sveinsdóttir frá Skálanesi í Gufudalssveit „setti í póst“ á Sauðá á Vatnsnesi þegar hún var tíu ára gömul, eða fyrir fjórtán árum, kom í leitirnar í Trékyllisvík á Ströndum núna í haust. Það var tólf ára gamall piltur í Árnesi, Kári Ingvarsson, sem gekk fram á flöskuna þegar hann var að smala. „Mamma sendi mér skilaboð um að þetta flöskuskeyti hafi fundist. Þá var ég stödd í Nepal, þar sem ég var að fljúga svifvæng sem ég geri eins mikið og ég get í frí tímanum mínum. Ég ákvað að senda honum póstkort til að þakka fyrir að senda mér bréfið aftur,“ segir Ágústa Ýr, sem núna um hátíðarnar er stödd heima á Skálanesi.„Þótt ég muni ekki sérstaklega eftir því að hafa sent þetta bréf, þá finnst mér alveg magnað að sjá það aftur, og í svona góðu ástandi. Vinkona mín átti heima á Sauðá og við sendum mikið af flöskuskeytum á þessum tíma.“ Nánar á www.reykholar.is